Minningarmót Jóns Ingimarssonar í skák hefst í kvöld

Í aldarminningu Jóns Ingimarssonar mun Skákfélag Akureyrar og Eining-Iðja í samvinnu við Ingimar Jónsson halda veglegt skákmót dagana 26. til 28. apríl. Á mótinu verða tefldar 10 mínútna skákir, alls 17-21 umferð, eftir fjölda þátttakenda. Teflt verður í Alþýðuhúsinu við Skipagötu, 4. hæð.

Dagskrá mótsins verður sem hér segir :

  • Föstudagur 26. apríl  kl. 19.30 Mótsetning og 1-4. umferð.
  • Laugardagur 27. apríl kl. 11.00 5-14.umferð.
  • Sunnudagur 28. apríl kl. 11.00 15-21.umferð.

Öllum er heimil þátttaka í mótinu meðan húsrúm leyfir. Þeir skákmenn sem voru samtímis Jóni og öttu kappi við við skákborðið eru sérstaklega boðni velkomnir. Þegar hafa um 20 skákmeistarar skráð sig til þátttöku, þar á meðal Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga.

Jón Ingimarsson var um árabil ein helsta driffjöðrin í  starfi Skákfélags Akureyrar og lengi formaður þess. Árið 1973 gerði félagið hann að  heiðursfélaga. Í nokkur ár sat Jón í stjórn Skáksambands Íslands. Hann tefldi á skákmótum í hálfa öld,  allt frá því á árinu 1931 og þar til stuttu áður en hann lést árið 1981. M.a. tefldi hann í landsliðflokki á Skákþingi Íslands og á Norðurlandamóti. Hann varð skákmeistari Norðlendinga  árið 1961.

Jón lagði gjörva hönd á margt fleira á sínum ferli. Hann var einn af stofnendum Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri og var formaður félagsins frá 1946 til dauðadags, alls í 35 ár. Þá sat hann í bæjarstjórn Akureyrar í 8 ár og starfaði lengi með Leikfélagi Akureyrar, svo nokkuð sé nefnt.