Í morgun barst SGS stuðningsyfirlýsing frá Norrænum samtökum starfsfólks í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum (NU-HRCT), en í henni kemur m.a. fram að samtökin telji kröfur íslensks launafólks um mannsæmandi lágmarkslaun sem duga fyrir framfærslu eðlilegar og sanngjarnar í ljósi þess fórnarkostnaðar sem launafólk hefur þurft að axla í kjölfar efnahagshrunsins.
Þá segir í yfirlýsingunni að samtökin styðji jafnframt þær verkfallsaðgerðir sem íslenskt verkafólk hyggur á til að ná fram réttlátum kröfum sínum. „Rétturinn til að skipuleggja sig og leggja niður vinnu til að ná fram kjarasamningum er mikilvægur hluti af þeim leikreglum sem gilda á vinnumarkaði. Þessi réttur er einn af grundvallarréttindum launafólks og því hvetja samtökin stjórnmálamenn og fyrirtæki til að virða lögmætar aðgerðir launafólks.“ segir m.a. í stuðningsyfirlýsingu NU-HRCT.
Starfsgreinasambandið vill nota tækifærið og þakka systursamtökum sínum fyrir þennan góða stuðning í baráttunni. Hann er kærkominn og undirstrikar samstöðumátt launafólks um allan heim.