Mikill kraftur og algjör samstaða

Í gær hélt félagið þrjá fundi með trúnaðarmönnum félagsins sem starfa á almenna markaðinum, þ.e. eftir kjarasamningi SGS við SA. Fundirnir fóru fram í Fjallabyggð, Dalvík og á Akureyri og var frábær mæting á þá alla. Á öllum þessum fundum var mikil kraftur í félagsmönnum og algjör samstaða um næstu skref. Það er ljóst að félagsmenn Einingar-Iðju eru tilbúnir í átök til að fylgja eftir sanngjörnum kröfum sínum sem SA hafnaði.

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, kynnti trúnaðarmönnum stöðu mála í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins en SA hafnaði öllum kröfum félagsmanna. Hann fjallaði einnig um rafrænu kosninguna um verkfallsheimild sem hefst í næstu viku. Jafnframt minntist hann á sex opna fundi sem verða á jafnmörgum stöðum á félagssvæðinu í næstu viku. Allir fundirnir verða túlkaðir yfir á ensku og pólsku.

Kæri félagi – valdið er þitt!!!

Félagið hvetur alla félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum til að mæta á félagsfundina í næstu viku og jafnframt taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Launafólk í landinu þarf á þínum kröftum að halda. Sýnum ábyrga afstöðu! Mætum og kynnum okkur stöðuna áður en við greiðum atkvæði.

Oft hefur verið sagt að samstaða skiptir miklu máli. Það er rétt. Við þurfum öll að standa saman til að ná fram okkar sanngjörnu kröfum. Sýnum samstöðumáttinn í verki og tökum þátt í atkvæðagreiðslunni.