Mikill áhugi á félagslegum leiguíbúðum á Akureyri

Fyrr í júlí birtist grein í Vikudegi eftir Björn Snæbjörnsson, formann félagsins, þar sem hann fjallar um húsnæðisvandann á Íslandi og Bjarg íbúðafélag. Greinina má lesa hér fyrir neðan.


Mikill áhugi á félagslegum leiguíbúðum á Akureyri

Húsnæðisvandinn á Íslandi er alvarlegur og kemur verulega niður á lífsgæðum fólks. Leigumarkaður er óöruggur og leiga mjög há. Fasteignakaup eru heldur ekki fýsilegur kostur fyrir almennt launafólk í dag. 

Verkalýðshreyfingin hefur haft frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs íbúðakerfis og beitt sér af krafti fyrir því að byggt verði upp traust, varanlegt kerfi. Við gerð síðustu kjarasamninga náðist mikilvægur áfangi í þessum efnum. Í kjölfarið stofnuðu ASÍ og BSRB „Bjarg íbúðafélag“, sem rekið er án hagnaðarmarkmiða og ætlað er að tryggja aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði til langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd „Almene boliger.“ 

Framkvæmdir hefjast á Akureyri á þessu ári

Miklar vonir eru bundnar við stofnun og rekstur félagsins og segja má að hjólin séu farin að snúast víða á landinu, þar sem „Bjarg íbúðafélag“ hefur samið við mörg sveitarfélög um samstarf varðandi byggingu leiguíbúða. Seint á síðasta ári var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Akureyrarbæjar og Bjargs, sem felur í sér að bærinn veiti 12% stofnframlag til byggingar 75 nýrra íbúða á vegum félagsins á Akureyri á næstu þremur árum. Bærinn hefur úthlutað félaginu lóð að Guðmannshaga 2 í nýja Hagahverfinu. Þar verða byggðar 20-30 íbúðir í fyrsta áfanga. Framkvæmdanefnd hefur verið skipuð og er undirritaður í nefndinni sem fulltrúi ASÍ.

Hönnun íbúðanna er langt á veg komin og gangi allt eftir, geta byggingaframkvæmdir hafist fyrir áramót. Við hönnun íbúðanna eru hagsýni og gæði höfð að leiðarljósi. Til að halda leiguverði lágu er meðal annars er horft til stærðar íbúðanna. 

Mikill áhugi

Bjarg íbúðafélag hefur opnað fyrir skráningu á biðlista vegna íbúða félagsins.
Skráningum á biðlista er almennt raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds er frágengin. Undantekning er að þær skráningar sem berast fyrir 31. júlí fara í pott og verður þeim sem þá hafa skráð sig raðað í númeraröð með úrdrætti.

Fjölmargar fyrirspurnir hafa borist til skrifstofu Einingar-Iðju varðandi leiguumsóknir og er greinilegt að félagsmenn hafa áhuga á þessum nýja möguleika á íbúðamarkaði, enda um að ræða spennandi kost fyrir fólk á leigumarkaði. Augljóslega er líka meira öryggi í svona búsetuformi. Skrifstofan veitir með ánægju allar upplýsingar. Heimasíða Bjargs er líka mjög aðgengileg og þar er hægt að fá svör við flestum spurningum.

Styrkjum félagslega húsnæðiskerfið

Verkalýðshreyfingin undirbýr nú kjaraviðræður, þar sem kjarasamningar eru lausir frá og með næstu áramótum. Kaup á fasteign er í flestum tilvikum ein mesta fjárfesting fólks og oftar en ekki er stofnað til mikilla skuldbindinga til að fjármagna kaupin, eins er það þannig að leiguverð á frjálsum markaði er svo hátt að uppstaðan í útborguðum launum almenns launafólks fer í leigu. 

Einsýnt er að í komandi kjaraviðræðum verður lögð áhersla á að styrkja félagslega íbúðakerfið. Stofnun Bjargs leigufélags var mikilvægur áfangi í þessum efnum. Vandinn er hins vegar stór og þess vegna er nauðsynlegt að styrkja félagslega húsnæðiskerfið enn frekar.

Stofnun Bjargs íbúðafélags er gott dæmi um hverju samstaða getur komið til leiðar. 

Höfundur er formaður Einingar-Iðju.