Mikil viðbrögð vegna auglýsinga frá félaginu

Undanfarið hefur félagið auglýst og fjallað mikið um ýmis réttindamál, m.a. var minnt á hve mikilvægur launaseðillinn er og félagsmenn hvattir til að kanna hvort hann væri í lagi. Eftir birtingu þessara auglýsinga hefur fjöldi félagsmanna haft samband við félagið með ýmsar spurningar og mál sem verið er að skoða.

Það er gleðilegt hve margir hafa komið til okkar til að kanna hvort allt sé í lagi en verra er að sjá að víða eru hlutir ekki í lagi. Hjá um 90% þeirra sem hafa komið og eru að vinna í veitingageiranum er eitthvað að sem þarf að laga. Sem dæmi má nefna að 173,33 tímar er hámark dagvinnustunda á mánuði, en við höfum séð dæmi um að sumir eru að vinna allt upp í 220 dagvinnutíma á mánuði. Allt fyrir ofan 173,33 tíma á að vera yfirvinna, ekki dagvinna með 33 eða 45% álagi eins og sumir gera. Skoðun starfsmanna er því miður sú að í þessum tilvikum er ekki um að ræða þekkingarleysi atvinnurekanda.

Það virðist einnig vera talsvert um að fólk sé ráðið á jafnaðarkaupi, þó slíkt sé ekki til í kjarasamningum. Það á að greiða dagvinnu og yfirvinnu eða vaktaálag ef um vaktavinnu er að ræða. Það virðist líka vera mikið um að vaktir hafi ekki upphaf eða endi og að þær séu ekki samfelldar. Það eru til reglur um vaktskrá sem ber að fara eftir. Ef ekki er til staðar ráðningarsamningur um vaktavinnu ber að greiða dagvinnu og yfirvinnu. Ennfremur eru mörg dæmi um að samið sé um svonefnd verktakalaun en þá er ekkert greitt í lífeyrissjóð, til stéttarfélags og annað. Í slíkum tilvikum verður launþegi að huga að þeim þáttum sjálfur og breytir það heildardæminu verulega.

Af gefnu tilefni vill Eining-Iðja benda félagsmönnum sínum að skoða launaseðlana sína vel og hafa samband við félagið ef það telur að eitthvað sé að.

Jafnframt viljum við hvetja atvinnurekendur til að hafa launamál starfsmanna sinna í lagi.