Í síðustu viku auglýsti félagið á fjórum síðum í og við miðopnu N4 Dagskrárinnar. Þarna voru t.d. starfsmenn sem eru að vinna á veitingastöðum, hótelum gistiheimilum eða í annarri ferðaþjónustu minntir á réttindi sín með því að birta nokkur áhersluatriði úr kjarasamningi. Einnig var verið að minna á hvað félagið gerir fyrir félagsmenn sína og minnt á hve mikilvægur launaseðillinn er. Eftir birtingu þessara auglýsinga hefur fjöldi félagsmanna haft samband við félagið með ýmsar spurningar og mál sem verið er að skoða.
Það virðist t.d. vera talsvert um að fólk sé ráðið á jafnaðarkaupi, þó slíkt sé ekki til í kjarasamningum. Það á að greiða dagvinnu og yfirvinnu eða vaktaálag ef um vaktavinnu er að ræða. Það virðist líka vera mikið um að vaktir hafi ekki upphaf eða endi og að þær séu ekki samfelldar. Það eru til reglur um vaktskrá sem ber að fara eftir. Ef ekki er til staðar ráðningarsamningur um vaktavinnu ber að greiða dagvinnu og yfirvinnu. Ennfremur eru mörg dæmi um að samið sé um svonefnd verktakalaun en þá er ekkert greitt í lífeyrissjóð, til stéttarfélags og annað. Í slíkum tilvikum verður launþegi að huga að þeim þáttum sjálfur og breytir það heildardæminu verulega.
Af gefnu tilefni vill Eining-Iðja hvetja launþega til að skoða launaseðlana sína vel og hafa samband við félagið ef það telur að hlutirnir séu ekki í lagi.