Mikil ánægja með þjónustu og starfsemi félagsins

Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera.

Niðurstöðurnar sem birtar voru í desember eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.

Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. um viðhorf til félagsins og þjónustu þess. Þar kom fram að viðhorfin til félagsins og þjónustu þess er mjög jákvætt, en einungis 4% sögðu frekar eða mjög óánægðir við báðum þessum spurningum. Við erum rosalega ánægð með það. Okkur finnst stemmningin í félaginu líka mjög góð og það er mikil samheldni. Ánægjan með starf okkar eykst líka á hverju ári, sem segir okkur að við séum að gera eitthvað rétt. Ég held að ástæðan fyrir þessu sé að við auglýsum réttindamál mjög mikið og eyðum miklum fjármunum í að koma málefnum okkar á framfæri,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins.

Um 54% sögðust hafa nýtt sér þjónustu félagsins á síðustu 12 mánuðum. Konur eru duglegri að nýta sér þjónustuna, en 59% þeirra sögðust hafa gert það miðað við 46% karla. Konur eru líka aðeins ánægðari með þjónustuna á heildina litið.

Rannsókn sem þessi er afar gagnleg og getur félagið stuðst við niðurstöðurnar á mörgum sviðum til hagsbóta fyrir félagsmenn.

Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins.