Mikil ánægja með þjónustu félagsins

Sagt var frá því skömmu fyrir jól að niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem gerð var fyrir félagið væru komnar á heimasíðuna og var þá fjallað um launakjör félagsmanna. Hér fyrir neðan má finna nokkrar fleiri niðurstöður úr könnuninni.

  • Ánægja með þjónustu Einingar-Iðju er almennt mikil og hefur verið undanfarin ár. Rúmlega 95% svarenda sögðust vera sáttir eða hvorki né er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju og rúmlega 95,5% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru mjög svipaðar niðurstöður og á síðustu tveimur árum, reyndar aðeins betri.
  • 60,6% svarenda sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði miðað við um 55,5% í fyrra.
  • Að meðaltali unnu svarendur 45,3 klst. á viku í sínu aðalstarfi, sem er örlítið minna en í fyrra. 38,8% segjast vinna 40 tíma, 21,3% vinna fleiri en 50 tíma og 17,5% svarenda segjast vinna 41-45 tíma. Þetta á við þá sem eru í fullu starfi.
  • 32,2% segjast vera sátt með laun sín miðað við 30,5% í fyrra. 39,9% eru ósátt miðað við 40,1% í fyrra. Fleiri konur en karlar eru ósáttari með launin og eins frekar eldri en þeir sem yngri eru.
  • 41,3% voru frá vinnu einn dag eða meira vegna eigin veikinda eða vinnuslyss á síðustu þremur mánuðum miðað við 40,7% í fyrra og 41% árið 2014.
  • 21% segjast hafa fengið á síðastliðnum 12 mánuðum fengið greiddan bónus, aukagreiðslu eða aðrar uppbætur umfram kjarasamninga. Árið 2015 sögðu 22,3% já.
  • 77,9% eru sammála fullyrðingunni: Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu. 7,6% eru henni ósammála. Konur eru ánægðari með starf sitt, eða 83% á móti 71% karla.
  • 72,8% segja að samskipti á þeirra vinnustað séu opin og heiðarleg, en 13,1% voru ekki á þeirri skoðun.
  • 92,9% sögðust hafa séð auglýsingar frá félaginu.