Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega aðför Primera Air að réttindum launafólks

Á heimasíðu ASÍ kemur fram að samkvæmt fréttum hefur verið upplýst að Primera Air byggi starfsemi sína og flug héðan frá Íslandi á grófum félagslegum undirboðum gagnvart áhöfnum þeirra flugvélaga sem notaðar eru í rekstri félagsins.

Miðstjórn ASÍ áréttar að um kaup og kjör þessara áhafna fer skv. íslenskum lögum og kjarasamningum, hvort heldur litið er til laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005 eða laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands nr. 45/2007.

Primera Air stundar reglubundið flug frá Íslandi til nokkurra áfangastaða í Evrópu með flugvélum skráðum utan Íslands en á EES-svæðinu sem leigðar eru með áhöfn til þess að sinna þessu flugi. Áhafnir þessara flugvéla, alveg eða að hluta, eiga tímabundið eða varanlega aðalstarfsstöð sína hér á landi þar sem vinna þeirra hefst og endar.

Alþýðusamböndin á öllum Norðurlöndunum líta þennan rekstur og aðferðafræði Primera Air, Ryanair og annarra álíka flugfélaga alvarlegum augum og hyggjast hindra brot þeirra með öllum tiltækum ráðum. ASÍ mun ekki liggja á liði sínu í því efni og leitað verður allra leiða til þess að stöðva hina ólögmætu starfsemi.

ASÍ skorar á íslensk að stjórnvöld að nýta lögbundnar heimildir sínar til þess að stöðva þessa brotastarfsemi félagsins þegar í stað en til þess eru heimildir bæði í lögum nr. 139/2005 og 45/2007.