Miðstjórn ASÍ ályktar um kjaradeiluna í Straumsvík

Alþýðusamband Íslands ítrekar kröfu sína frá 18.11 2015, þess efnis að Samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir því að gengið verði hið fyrsta frá kjarasamningi á milli Rio Tinto Alcan á Íslandi (ISAL), sem SA fer með samningsumboð fyrir, og hlutaðeigandi verkalýðsfélaga.

Í gildi er löglegt ótímabundið verkfall (útflutningsbann á áli úr Straumsvíkurhöfn) sem fyrirtækið leitar allra leiða til þess að skjóta sér undan. Alþýðusamband Íslands fyrir hönd allra aðildarsamtaka sinna lýsir yfir fullum stuðningi við verkfallsaðgerðir félagsmanna Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Jafnframt skorar ASÍ á Samtök atvinnulífsins að sjá til þess að aðildarfyrirtæki þess virði lög- og venjubundnar samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði.

ASÍ hvetur félagsmenn allra aðildarsamtaka sinna og allt launafólks á Íslandi til að virða aðgerðir félagsmanna Hlífar og stuðla að því að verkfallsbrot verði ekki framin.