Mestur verðmunur í flokki ávaxta og grænmetis

Verðmunur á rauðum eplum reyndist 139% í verðkönnun ASÍ á matvöru sem gerð var í átta verslunum miðvikudaginn 17. maí. Eplin voru ódýrust á 208 kr/kg í Krónunni Bíldshöfða en dýrust í Víði í Borgartúni 498 kr/kg. Kannað var verð á 71 tegund matvöru í þessari könnun. Iceland í Vesturbergi var oftast með hæsta verðið eða í 41 skipti en Bónus í Borgarnesi var oftast með lægsta verðið eða í 35 tilfellum af 71. Þá vekur athygli að í helmingi tilfella munaði aðeins 1 kr. á verði sömu vöru í Bónus og Krónunni.

Mestur verðmunur í flokki ávaxta og grænmetis
Verðmunurinn var mestur í flokki ávaxta og grænmetis eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Einnig var mikill verðmunur á Kellogg´s Corn flakes morgunkorni eða 132%. Það var dýrast hjá Iceland í Vesturbergi 1.065 kr/kg en ódýrast í Nettó í Borgarnesi 459 kr/kg.



Minnsti verðmunurinn í könnuninni var 8% á Merrild 103 kaffipakka, sem var dýrastur á 699 kr. hjá Iceland en ódýrastur 649 kr. í Bónus. Þá var 9% verðmunur á hreinu KEA skyri. Það var dýrast í Iceland og Hagkaupum Eiðistorgi 249 kr. en ódýrast í Bónus 229 kr.  

Mesta vöruúrvalið var í Fjarðarkaupum og Hagkaupum Eiðistorgi sem áttu til 69 af þeim 71 vörutegundum sem kannaðar voru, þar á eftir kom Iceland Vesturbergi sem átti 67 af 71 vöru.

Sjá verðsamanburð á öllum vörum

NÝTT! Gerið sjálf verðsamanburð milli verslana í þessari könnun

Framkvæmdin
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum þann 17. maí 2017; Bónus Borgarnesi, Krónunni Bíldshöfða, Nettó Borgarnesi, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni-Samkaup Bolungarvík, Hagkaupum Eiðistorgi, Víði Borgartúni og Iceland Vesturbergi.  

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.