Undanfarin ár hefur verið hraður vöxtur í efnahagslífinu á Íslandi. Ný rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga, bendir til að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki og einstaklingum með lágar tekjur. Við þessum brotum eru í dag engin viðurlög sem Alþýðusambandið telur algerlega óásættanlegt.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
Brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum er alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir einstaklinga. Þessir félagar okkar eiga að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það eru hagsmunir samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda mikil.
Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2019 gaf ríkisstjórn Íslands fyrirheit um að gripið verði til fjölmargra aðgerða gegn launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrirheit sem byggja á kröfum og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir liggur aðgerðaáætlun en verkefnið nú er að fylgja yfirlýsingunni eftir og hrinda að fullu í framkvæmd á næstu mánuðum þannig að stigin verði markviss og afgerandi skref til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.
ÍSLENSKUR VINNUMARKAÐUR 2019 - Erlent launafólk og brotastarfsemi á vinnumarkaði (skýrslan í heild sinni)