Meirihlutinn tilbúinn í verkfallsaðgerðir

Eftirfarandi grein eftir Björn Snæbjörnsson, formann Einingar-Iðju og SGS, birtist í Vikudegi í gær:

Eining-Iðja hefur í þessari viku efnt til sex funda á starfssvæði sínu, þar sem félagsfólk hefur komið skoðunum sínum á framfæri í tengslum við kröfugerð félagsins í komandi kjaraviðræðum. Á laugardaginn hefur verið boðað til fjölmenns fundar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, þar sem farið verður nánar yfir þær ábendingar sem fram komu á fundunum sex fyrr í vikunni. Á fundinn í Hofi eru félagsmenn í samninganefnd Einingar-Iðju og trúnaðarráði boðaðir, auk trúnaðarmanna sem ekki eru í þessum nefndum. Ljóst er að um fjölmennan fund verður að ræða, hátt í tvöhundruð félagsmenn hafa fengið boð um að mæta á fundinn.


Þjóðfundarsnið
Á fundinum í Hofi verður kröfugerðin að mestu mótuð, en samninganefnd félagsins gengur þó endanlega frá henni eftir helgina. Kröfugerð félagsins verður því næst send samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, sem fer með samningsumboð félagsins. Spennandi verður að taka þátt í þessum fjölmenna fundi í Hofi, sem verður með svokölluðu þjóðfundarsniði. Með því fyrirkomulagi, ná vonandi sem flest sjónarmið að koma fram, enda um að ræða afkomu almenns launafólks næstu misserin.


Viðamikil viðhorfs- og kjarakönnun
Síðustu fjögur haust hefur Eining-Iðja í samstarfi við AFL starfsgreinafélag fengið Capacent til að framkvæma viðamikla viðhorfs- og kjarakönnun á meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru byggðar á sambærilegum könnunum sem Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hafa látið gera fyrir sig í nokkur ár og því unnt að bera saman niðurstöður að verulegu leyti. Þegar heildarlaun félagsmanna Einingar-Iðju eru skoðuð, þ.e. hjá þeim sem eru í fullu starfi, má sjá að þau eru að meðaltali 372.000 krónur og hafa þau hækkað um 60 þúsund krónur (19,3%) frá því er fyrsta könnunin var gerð haustið 2011. Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 409.262 en voru í fyrra kr. 396.607. Konurnar eru með kr. 338.313 en í fyrra var upphæðin kr. 302.066. Hækkunin á tímabilinu er heldur meiri hjá körlum heldur en konum. Þannig hafa heildarlaun karla hækkað um 73 þúsund á síðustu tveimur árum eða um 21,6% meðan heildarlaun kvenna hafa hækkað um 56 þúsund krónur eða 20,0%. Ef aðeins er skoðuð hækkun milli áranna 2013 og 2014 á heildarlaunum þá hækkuðu karlar að meðaltali um 3,2% en konur um 12%.

Heildarlaun eru að jafnaði hæst hjá félagsmönnum sem búa á Dalvík, eða um 396 þúsund krónur, á meðan heildarlaun á Akureyri eru um 368 þúsund krónur. Talsverður munur er á heildalaunum eftir starfsstéttum. Heildarlaun eru hæst hjá bílstjórum og tækjastjórnendum, en sá hópur vinnur hefur að jafnaði lengstan vinnutíma. Lægstu meðalheildarlaun eru í ræstingar/skólaliðar/leiðbeinendur eða kr. 301.185 og síðan kr. 354.666 í umönnunarstörfum.

Meirihlutinn ekki sáttur við launin
Í þessari viðamiklu könnun var fólk spurt um viðhorf til launanna. 22,7% sögðust „mjög ósátt“ við launin. 27,7% sögðust vera „ósátt“ við launin og 24 % „hvorki né.“ Aðeins 5,9% sögðust vera „mjög sátt“ við launin og 19,8 % „frekar sátt.“ Þessar tölur sýna svart á hvítu að stór hluti félagsmanna Einingar-Iðju er ekki sáttur við launin sín.

Athygli vekur að 56 % segja að álag í vinnunni hafi aukist á undanförnum mánuðum.

Almenn ánægja með félagið
Ánægja með þjónustu Einingar-Iðju er almennt mikil og hefur verið undanfarin ár. Tæp 62% svarenda sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði miðað við 55% í fyrra. Þeir sem ekki nýttu sér þjónustu félagsins voru spurðir hvers vegna þeir hefðu ekki gert það. 117 eða tæp 72% svöruðu að þeir hefðu ekki þurft á þjónustunni að halda.

Tæp 94% merktu við „ánægður“ eða „hvorki né“ er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru mjög svipaðar niðurstöður og á síðustu tveimur árum.

Niðurstaðan er einkar ánægjuleg og staðfestir enn og aftur að félagsmenn eru almennt sáttir við þjónustu félagsins.

Verkfallsaðgerðir
Eins og fyrr segir eru kjaraviðræður að hefjast, þar sem gildandi kjarasamningar renna út í lok febrúar. Ljóst er að á brattann verður að sækja á ýmsum sviðum. Ýmsar starfsgreinar hafa samið um verulegar kjarabætur á undanförnum mánuðum, en talsmenn vinnuveitenda tala um mikilvægi þess að að samið verði á „hóflegum“ nótum á almennum vinnumarkaði, þannig að hægt verði að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Verkalýðhreyfingin kannast vel við þennan söng. Engum blöðum er um það að fletta að röðin er nú komin að almennu launafólki, sem getur ekki sætt sig við að sitja enn eina ferðina eftir, meðan aðrar stéttir hækka umtalsvert í launum. Miðað við þessar áherslur vinnuveitenda, er hugsanlegt að verkalýðshreyfingin þurfi að grípa til aðgerða, til að þrýsta á um bætt kjör. Í fyrrgreindri könnun var fólk sérstaklega spurt um hvort viðkomandi væri tilbúinn til að taka þátt í verkfallsaðgerðum til að knýja á um bætt kjör. Niðurstaðan er skýr. 23,9% svöruðu „örugglega“ og 21,7% „mjög líklegt.“ 19,4 % svöruðu spurningunni að það væri „frekar líklegt.“ Það eru því 65 % félagsmanna Einingar-Iðju sem styðja hugsanlegar verkfallaaðgerðir, þurfi á annað borð að grípa til þess ráðs.

Launafólk á Íslandi krefst sanngjarnra launa fyrir vinnu sína og á næstu vikum kemur í ljós afstaða vinnuveitenda.

Ég óska lesendum gleðilegs árs, með einlægri ósk um farsæld á nýju ári og mannsæmandi kjör. Nú er málið að standa saman í baráttunni sem framundan er.

Björn Snæbjörnsson.
- Höfundur er formaður Einingar-Iðju og formaður Starfsgreinasambands Íslands.