Meira af þingi SGS

Fulltrúar félagsins á 4. þingi SGS
Fulltrúar félagsins á 4. þingi SGS

Eins og kom fram í frétt á síðunni í gær lauk 4. þingi Starfsgreinasambands Íslands í gær á Akureyri. Þingið var haldið undir yfirskriftinni Samstaða og Samvinna og var það mál fólks að sá hafi verið andinn á þinginu. Eining-Iðja átti 12 fulltrúa á þinginu og má sjá þá á myndinni sem fylgir fréttinni.

Í fréttinni gær var sagt frá fjórum ályktunum sem samþykktar voru á þinginu en að auki var starfsáætlun til tveggja ára samþykkt sem og fræðslustefna Starfsgreinasambands Íslands samþykktar.

Stefna Starfsgreinasambandsins í fræðslumálum

Til að auka ánægju og hæfni starfsfólks í atvinnulífinu þarf öfluga fræðslu og gott aðgengi að menntun, bæði innan ákveðinna starfsgreina og almennt. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda og starfsfólks að auka hæfni og færni í atvinnulífinu auk þess sem það eru hagsmunir samfélagsins alls að bæta menntunarstig í landinu. Sameiginlegir starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins hafa lyft grettistaki til aukinnar menntunar og færni og ber að halda áfram á þeirri braut enda vex skilningur og áhugi á fræðslu og menntun með hverju árinu. Þá hefur samspil raunfærnimats og áherslu á styttri námsbrautir aukið möguleika almenns starfsfólks í atvinnulífinu til að afla sér réttinda og hvatt til aukinnar menntunar.

Margar kannanir sem hafa verið gerðar meðal almenns starfsfólks í atvinnulífinu bera vott um mikinn áhuga á styttri námskeiðum og námsleiðum til að auka færni í starfi og möguleika til að þróast innan viðkomandi starfsgreinar.

Í fræðslumálum leggur Starfsgreinasamband Íslands áherslu á að:

  • Auka fjölbreytni í námi með áherslu á styttri námsleiðir til að koma til móts við óskir fólks á vinnumarkaði.
  • Skapa aðstæður til að fólk geti aflað sér starfsréttinda í áföngum.
  • Nám og raunfærnimat verði metið til eininga og nýtist til áframhaldandi náms og/eða starfsréttinda.
  • Tryggja gæði vinnustaðanáms í góðu samstarfi við atvinnurekendur og fræðsluaðila.
  • Starfsfólk fái nám og/eða viðurkenndar námsleiðir metið til launa enda líklegt að menntun auki færni á vinnumarkaði og þá um leið framleiðni fyrirtækja.
  • Auka lífsgæði fólks með fjölbreyttu framboði og aðgengi að tómstundanámi enda leiðir slíkt nám oft til frekari menntunar.

Til að ná þessum markmiðum leggur Starfsgreinasamband Íslands til að:

  • Efla og þróa áfram starfsmenntasjóði aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga.
  • Starfsgreinasambandið sé virkur þátttakandi í stefnumörkun og mótun náms fyrir atvinnulífið.
  • Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins séu leiðandi í stjórnun og stefnumörkun símenntunarmiðstöðva og annarrar fræðslustarfsemi sem tengist þeim sem minnstu menntun hafa á vinnumarkaði.
  • Fulltrúar stéttarfélaganna í Starfsgreinaráðum hafi að því frumkvæði að aukið verði fjölbreytni og aðgengi að styttri námsleiðum.
  • Símenntunarmiðstöðvar verði hvattar til að bjóða upp á nám sem víðast og tryggja aðgengi allra að námi.
  • Viðhalda og efla þátttöku vinnumarkaðarins í því þróunarstarfi sem unnið er innan Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

 

Starfsáætlun Starfsgreinasambands Íslands fyrir 2014 og 2015

Verkefni og áherslur

Þingið staðfestir að eftirfarandi atriði verði sett í forgang hjá skrifstofu Starfsgreinasambands Íslands næstu tvö starfsár. Framkvæmdastjórn og formenn sambandsfélaga skulu vinna að framgangi þessara mála.

Kjaramál

Eðli málsins samkvæmt eru kjaramál helsti málaflokkur Starfsgreinasambandsins en verkefnunum má skipta í eftirfarandi þætti:

  • Undirbúningur kjarasamninga – ef til kjarasamninga kemur mun Starfsgreinasamband Íslands standa fyrir kjaramálaráðstefnum og samlesturs auk gerð viðræðuáætlana og vera sá virki samráðsvettvangur sem til er stofnað.
  • Gerð kjarasamninga – á þessari stundu er ekki ljóst hvernig kjarasamningsgerð verður háttað þau tvö starfsár sem eru undir.
  • Eftirfylgni með kjarasamningum – Í aðdraganda kjarasamninga 2013 voru haldnar kjaramálaráðstefnur um hvern kjarasamning og féll það í góðan jarðveg. Þá var kallað eftir fleiri slíkum ráðstefnum eftir gerð kjarasamninga þar sem svigrúm væri til að samræma túlkun. Ætla má að kjarasamningar verði undirritaðir á tímabili starfsáætlunar og fylgir því kynning á samningunum meðal starfsfólks stéttarfélaganna og úrvinnsla bókana.

Meðal áherslna í kjaramálum á milli kjarasamninga er að styrkja starfaröðun inn í samninga og tryggja tengingu náms við launahækkanir. Þá þarf að fylgjast vel með þróun atvinnulífsins á komandi vetrum og vera undirbúin undir breytingar á hlutföllum milli hins opinbera vinnumarkaðar og almenna markaðar og áhrif þess á starfsfólk innan velferðarþjónustunnar.

Fræðslumál

Fræðslumálum sem Starfsgreinasambandið sinnir má skipta í innri fræðslu og ytri. SGS nýtist til að miðla þekkingu til starfsfólks aðildarfélaganna og á milli þeirra en einnig á SGS að vera rödd fólks sem hefur ekki formlega menntun innan framhaldsfræðslukerfisins.

  • Samráð starfsgreinaráða – SGS skipar fulltrúa í 7 starfsgreinaráð en þau eru misvirk. Til að efla fulltrúa SGS innan ráðanna verður samráðsvettvangi innan SGS nýttur áfram svo að fulltrúar hafi tækifæri til að ráðfæra sig hvert við annað og styrkja í einstökum starfsgreinaráðum.
  • Samráð starfsfólks aðildarfélaganna – SGS heldur áfram að tryggja vettvang fyrir starfsfólk aðildarfélaganna til að hittast en skýr ósk hefur komið fram um ráðstefnu og námskeið fyrir þennan hóp.
  • Mansal – Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali er gert ráð fyrir samstarfi við verkalýðsfélög enda er nauðsynlegt að innan þeirra sé fólk upplýst og geti greint hugsanleg einkenni mansals á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið mun óska eftir styrk úr fræðslusjóði til að kynna málið meðal starfsfólks stéttarfélaga.
  • Hlutastörf – Starfsgreinasambandið tekur þátt í Norrænu rannsóknarverkefni um félagleg og efnahagsleg áhrif hlutastarfa með sérstaka áherslu á kynbundinn mun hlutastarfa. Þetta verkefni verður unnið að stærstum hluta til 2014.

Upplýsingamál

Það er aðkallandi viðfangsefni að halda vinnumarkaðsmálum í almennri umræðu, miðja stöðugt upplýsingum um réttindi og skyldum til vinnandi fólks. Nýta ber SGS sem sameiginlegan vettvang í þessu skyni næstu árin í meira mæli en verið hefur.

  • Ytri vefur SGS – Á vefsíðunni www.sgs.is skal birta að jafnaði tvær fréttir í viku um kjaramál og annað tengt starfseminni. Þá skulu ályktanir og umsagnir birtast þar eftir efni og ástæðum og greina skal frá því sem hæst ber hverju sinni. Síðan skal rekin sem upplýsingasíða fyrst og fremst.
  • Fésbókin – SGS hefur haldið úti fésbókarsíðunni „vinnan mín“ síðastliðið ár og dreift þar molum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði með sérstaka áherslu á árstíðarbundin réttindi svo sem desember- og orlofsuppbót, stórhátíðarálag og frídaga. Síðan hefur mælst vel fyrir en fjölga þarf áskrifendum.
  • Innri vefur SGS – Innri vef SGS er ætlað að halda utanum gögn og miðla upplýsingum á milli aðildarfélaga sambandsins. Á innri vefnum hafa formenn og lykilstarfsmenn aðgang að fundargerðum framkvæmdastjórnar og formannafunda, geta varpað fram spurningum um túlkanir á kjarasamningum, fylgst með skýrslum frá fundum erlendis, leitað í fundargerðum starfsgreinaráða og svo mætti lengi telja. Innri vefur SGS þarf að vera í stöðugri þróun til að hann nýtist sem best.
  • Kynningaherferðin: fyrstu skrefin  - Það vakti töluverða athygli þegar Starfsgreinasambandið birti lista yfir einföld atriði sem fólk þarf að vita þegar tekin eru fyrstu sporin á vinnumarkaði. Ljóst er að það er full þörf á að miðla slíku á vorin þegar skólafólk hefur atvinnuþátttöku. Lagt er til að virkja aðildarfélögin í kynningaherferð í lok maí/byrjun júní til að koma upplýsingum á framfæri við ungt fólk. Ef vel tekst til gæti þetta orðið að föstum lið, að eitthvert kjaramál er tekið fyrir og aðgerðir aðildarfélaganna samræmdar til að koma skýrum skilboðum áfram.
  • Kennsluefni fyrir grunn- og framhaldsskóla – Starfsgreinasambandið beiti sér fyrir því að samið verði kennsluefni fyrir efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla til að kynna réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þetta má gera í samstarfi við Félagsmálaskóla Alþýðu, hugsanlega Námsgagnastofnun og fleiri. Verkefnið er háð því að fá styrk frá Þróunarsjóði Námsgagna.

Einstaka mál

Starfsgreinasambandið er vettvangur til að fjalla um einstaka mál út frá sjónarmiðum almenns og sérhæfðs verkafólks, hvaða áhrif samfélagslegar breytingar hafa á vinnuumhverfi og kjaramál þessa hóps. Því eru hér nefnd nokkur atriði sem óskað hefur verið eftir að SGS taki til umfjöllunar á næsta tímabili en á eftir að útfæra nánar. Leitast verður við að hafa samstarf við aðrar hreyfingar launafólks, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök í útfærslu einstara atriða.