Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera. Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar ársins. Alls voru svarendur 721 og gefa niðurstöðurnar glögga vitneskju um viðhorf félagsmanna.
Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. um heildarlaun og dagvinnulaun viðkomandi. 31,2% segjast vera sátt með laun sín miðað við 36% í fyrra. 41,5% eru ósátt miðað við 34,9% í fyrra. Fleiri konur en karlar eru ósáttari með launin og eins frekar eldri en þeir sem yngri eru.
Heildarlaun
Hvað varðar heildarlaun þá voru þau að meðaltali kr. 499.182 í ár miðað við kr. 463.297 í fyrra og kr. 442.828 árið 2016. Meðalhækkun á heildarlaunum á árinu er 8%, sem er mun meira en kjarasamningshækkanirnar segja til um, almenn hækkun heildarlauna á samsvarandi tíma var 5% skv. tölum Hagstofu Íslands.
Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með um 543 þúsund krónur en voru í fyrra með um 503 þúsund. Konurnar eru með um 453 þúsund krónur en í fyrra voru þær með um 422 þúsund. HF ber í huga að samkvæmt könnuninni þá vinna karlar mun meiri yfirvinnu en konur.
Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í 100% starfshlutfalli eru konur að jafnaði með um 21% lægri heildarlaun heldur en karlar. Meðalheildargreiðslur karla voru rúmar 547 þúsund krónur, en meðalheildargreiðslur kvenna rúmar 432 þúsund krónur.
Meðal heildarlaun á Akureyri eru kr. 498.770, sem er hækkun um kr. 31.012 á milli ára. Á Dalvík kr. 520.777, sem er hækkun um kr. 76.309. Í Fjallabyggð kr. 439.399, sem er lækkun um kr. 24.576, og á öðrum stöðum í firðinum eru þau kr. 508.580 sem er hækkun um kr. 75.890.
Dagvinnulaun
Dagvinnulaunin hafa einnig aukist en þau eru nú að meðaltali kr. 383.433 miðað við kr. 364.719 í fyrra og kr. 346.128 árið 2016.
Ef meðal dagvinnulaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 383.526 en voru í fyrra með kr. 367.993, sem er 4,2% hækkun. Konurnar eru með kr. 383.326 en í fyrra voru þær með kr. 360.810, sem er 6,2% hækkun. Þannig að munur milli kynja er bara 200 krónu. Í fyrra var munurinn 7.000 krónur, þannig að konurnar hafa fengið meiri hækkanir á árinu.
Að jafnaði voru dagvinnulaun kvenna um 2,5 % lægri en meðaldagvinnulaun karla. Meðal dagvinnulaun karla í 100% starfshlutfalli voru rúmar 384 þúsund krónur en dagvinnulaun kvenna að meðaltali rúmlega 374 þúsund krónur.
Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.
Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.