Í síðasta Vikudegi má m.a. finna grein eftir Björn Snæbjörnsson, formann félagsins, þar sem hann fjallar um niðurstöður nýrrar Gallup könnunar félagsins. Greinina má lesa hér fyrir neðan.
Meðaltalslaun félaga í Einingu-Iðju eru 463 þúsund krónur á mánuði
- Almenn ánægja með þjónustu og starfsemi félagsins -
Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera.
Niðurstöður slíkra kannana eru afar gagnlegar fyrir félagið, þar sem markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.
Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar, sem Gallup gerði meðal félagsmanna í október og nóvember. Alls voru svarendur 687 og gefa niðurstöðurnar glögga vitneskju um viðhorf félagsmanna.
Laun
Heildarlaun fyrir fullt starf í september voru 463 þúsund krónur, miðað við 443 þúsund krónur á sama tíma í fyrra. Hækkunin er því 20 þúsund krónur. Heildarlaun karla voru í mánuðinum 503 þúsund krónur og heildarlaun kvenna 422 þúsund krónur. Laun karla hækkuðu um 17 þúsund krónur, miðað við sama tímabil í fyrra og laun kvenna um 24 þúsund krónur.
Dagvinnulaunin hafa sömuleiðis hækkað á milli ára. Þau voru í september á þessu ári að meðaltali 365 þúsund krónur, sem þýðir að dagvinnulaunin hafa hækkað um 19 þúsund krónur á mánuði. Konurnar voru með 361 þúsund krónur í dagvinnulaun og hafa launin hækkað hjá þeim um 28 þúsund krónur á milli ára.
Líðan í starfi
Eins og fyrr segir voru margir þættir kannaðir í umræddri Gallup-könnun. Sérstaklega var spurt um líðan í starfi.
33% sögðust vera mjög ánægðir í starfi og 48% sögðust vera frekar ánægðir. Þessi afgerandi niðurstaða er um margt ánægjuleg, því líðan í starfi og á vinnustað hefur mikil áhrif á líðan okkar almennt. Miðað við síðasta ár, sýnir könnunin að fleiri félagsmenn eru ánægðir í sínu starfi.
Vinnan og virk þátttaka á vinnumarkaði er einn mikilvægasti þátturinn í lífi sérhvers einstaklings. Þegar spurt var um hvort svarendur væru sammála þeirri fullyrðingu að samskipti á vinnustaðnum væru opin og heiðarleg, sögðust 73% vera því sammála og 87% sögðust geta leitað til næsta yfirmanns, ef þess gerðist þörf.
Ánægja með félagið
Svarendur voru sérstaklega spurðir um þjónustu og starfsemi Einingar-Iðju. Skemmst er frá því að segja að 96 % segjast vera „sáttir“ eða „hvorki né,“ þegar spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við félagið þegar á heildina væri litið. Tæp 72% sögðust vera „ánægðir“ og 25% „hvorki né.“ Þessi niðurstaða er afskaplega ánægjuleg og ívið betri en í fyrra. Þegar rýnt er í niðurstöðurnar, kemur í ljós að þeir sem ekki höfðu nýtt sér þjónustu félagsins, eru síður ánægðir með þjónustuna. Rúmlega helmingur félagsmanna hafði nýtt sér einhverja þjónustu félagsins undanfarna 12 mánuði.
Gleðilegt ár
Félagsmenn geta verið bjartsýnir í upphafi nýs árs. Það er þó verk að vinna fram undan á sviði verkalýðsmála. Við þá vinnu koma niðurstöður viðhorfs- og kjarakönnunarinnar að góðum notum. Ég óska félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs árs og þakka fyrir samfylgdina á nýliðnu ári.
Höfundur er formaður Einingar-Iðju.