Verktakafyrirtæki skráð á Höfuðborgarsvæðinu var gripið og sektað um síðustu helgi á Akureyri fyrir að hafa fjóra réttindalausa starfsmenn í vinnu án kennitölu við vafasamar aðstæður. Starfsmaður sem var handtekinn játar mistök. „Svona er lífið. Það geta komið upp hnökrar,“ útskýrir hann. Þetta kemur fram í frétt á vef Stundarinnar.
Þetta mál kom upp eftir að áhyggjufullur borgari hringdi í Einingu-Iðju og sagði frá verulega furðulegum vinnubröðgum við hús eitt hér í bæ. Viðkomandi sagðist hafa áhyggjur af öryggi þess sem þar var við störf. Vilhelm Adolfsson, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits, fór ásamt Vinnueftirlitinu strax á staðinn og ákvað Vinnueftirlitið að stöðva þá vinnu sem þar var í gangi.
Vilhelm lýsir aðstæðum þannig að enginn öryggisbúnaður hafi verið til staðar. „Þegar við komum á staðinn var einn einstaklingur að teygja sig upp undir þakskyggnið standandi á tánum efst uppi í stiganum. Stiginn stóð þar að auki á heimagerðum búkkum til að ná lengra upp. Þetta var allt mjög hættulegt.“ Framkvæmdir voru strax stöðvaðar og farið að ræða við mennina sem voru þar við vinnu. Auk íslendingsins voru fjórir Albanir þar, sem töluðu mjög litla ensku, en Vilhelm komst að því að þeir væru hvorki með skilríki á sér né með kennitölu.
„Áður en ég kallaði á lögreglu ráðfærði ég mig við hið opinbera til að kanna hvort fyrirtækið væri skráð með erlenda starfsmenn í vinnu hjá sér, sem reyndist ekki vera. Þjóðskrá sagði að þeir væru ekki heldur með kennitölu, eða yfirstandandi umsókn um kennitölu. Kennitala er forsenda fyrir atvinnu á Íslandi, því ekki er hægt að borga laun eða skatta án hennar,“ sagði Vilhelm og bætti við að hann hafi fengið þær upplýsingar að mennirnir hefðu verið launþegar í tvo og hálfan mánuð, en hvergi væri að finna launagreiðslur. „Sem þýðir hvað? Þeir fá bara fæði og húsnæði.“
„Eftir það hafði ég samband við lögregluna,“ segir Vilhelm. „Þeir komu á staðinn á laugardaginn og handtóku þessa starfsmenn sem voru að vinna þarna. Þegar lögreglan kemur þá reynir einn útlendinganna ásamt Íslendingnum að smala þeim öllum saman, komast í bíl og keyra í burtu, en lögreglan náði að stöðva það. Það sagði okkur að þetta væri ekki eins og það ætti að vera.“
Vilhelm hefur unnið í vinnustaðaeftirlitinu frá maí 2016, og segir að hann verði oft var við brot á kjarasamningum, sérstaklega gegn útlendingum og yngri Íslendingum. „Það eru verri atvik sem erlent starfsfólk lendir í, því það veit oft ekki hvert það á að leita. Það getur margt ekki lesið lögin og er oft ekki skráð í stéttarfélög.“
Hættulegast telur Vilhelm þegar erlent vinnufólk er háð atvinnurekanda upp á meira en bara tekjur. „Stundum eru þeir ekki að hleypa þessu fólki sjálft í búðir, heldur fara þeir og koma með vistir til þeirra, og handleggja vegabréf þeirra. Ég er alls ekki að segja að allir geri það, en sumir stunda þetta.“
Ef þú lesandi góður verður var við eitthvað grunnsamlegt eða skrítin vinnubrögð þá skaltu endilega hafa samband við félagið þannig að við getum kannað hvort allt sé gert á réttan hátt. Það er allra hagur að menn fari að leikreglum sem varðar réttindi og skyldur og ekki síður öryggismál.
Greinina í heild má lesa á vef Stundarinnar (Hægt er að lesa fjórar greinar frítt í mánuði, en ef menn vilja lesa fleiri greinar hafa menn val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði. Leiðbeiningar má nálgast á stundin.is/leidbeiningar.