Á aðalfundi félagsins sem fram fór í byrjun maí voru fjórir félagsmenn sæmdir gullmerki félagsins. Ein þeirra, Margrét Jónsdóttir, átti ekki heimangengt og gat því ekki tekið við merkinu. Í gær hélt félagið stjórnarfund í Fjallabyggð og nýtti formaður tækifærið og afhenti Margréti merkið í hennar heimabæ.
Þetta hafði formaður að segja um Margréti þegar hann tilkynnti um nýja gullmerkishafa á aðalfundi félagsins:
"Hún hefur verið svæðisfulltrúi Fjallabyggðar til fjölda ára og verið þannig í stjórn Einingar-Iðju. Hún var trúnaðarmaður á sínum vinnustað og hefur tekið þátt í starfi samninganefndar og einnig setið í Trúnaðarráði félagsins og í hinum ýmsu nefndum fyrir félagið. Hún er núna starfsmaður félagsins í Fjallabyggð."