Eining-Iðja vill minna á að á morgun kl. 14 verður haldið málþing um lífskjör iðnverkafólks á Akureyri á liðinni öld. Það er haldið í í minningu Jóns Ingimarssonar, fyrrum formanns Iðju félags verksmiðjufólks, Akureyri. Málþingið verður í salnum á 4. hæð Alþýðuhússins á Akureyri, Skipagötu 14. Við hvetjum alla áhugasama til að mæta og hlusta á fróðleg erindi.
Dagskrá:
1. Setning málþingsins
Þorsteinn E. Arnórsson, starfsmaður Einingar-Iðju og fyrrum formaður Iðju félags
verksmiðjufólks
2. Útivinnandi húsmæður. Líf verksmiðjukvenna á Akureyri
Andrea
Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
Arndís
Bergsdóttir, doktorsnemi í safnafræði við Háskóla Íslands.
3. Samvinnan
Kristín
Hjálmarsdóttir, fyrrverandi formaður Iðju félags verksmiðjufólks
4. Fyrsta verkfall Iðju
Þráinn Karlsson leikari
5. Kaffi
6. Í eina sæng. Sameining Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags
Akureyrarkaupstaðar.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi hjá
EYÞING
7. Fyrsta Verkamannafélagið á Akureyri
Aðalsteinn Bergdal leikari
8. Ráðstefnuslit
Merkir Íslendingar
Miðvikudaginn 6. febrúar sl. birtist eftirfarandi grein í dálkinum Merkir íslendingar í Morgunblaðinu.
Jón Ingimarsson fæddist fyrir einni öld, 6.2. 1913. Foreldrar hans voru Ingimar Jónsson iðnverkamaður og k.h., María Kristjánsdóttir.
Jón starfaði við Ullarverksmiðju Gefjunar 1934-46, var síðan verslunarmaður og vörubílstjóri, en 1954 varð hann starfsmaður verkalýðsfélaganna á Akureyri. Hann var einn af stofnendum Iðju, félags verksmiðjufólks, 1936, sat í stjórn félagsins frá 1939 og var formaður þess frá 1946 og til dauðadags, í alls 35 ár. Þá var hann skrifstofustjóri félagsins frá 1962. Auk þess var hann ritstjóri Iðjublaðsins í 17 ár, kom á orlofsferðum félagsmanna og gekkst fyrir stofnun Sjúkrasjóðs Iðju.
Jón var atkvæðamikill í starfi Sósíalistafélags Akureyrar um árabil og síðar Alþýðubandalagsins. Hann sat í bæjarstjórn Akureyrar 1962-1970 og starfaði í ýmsum nefndum bæjarins. Hann var einn stofnendum Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri og Styrktarfélags vangefinna, auk þess sem hann vann að málefnum aldraðra.
Jón var ágætur fimleikamaður á sínum yngri árum og tók m.a. þátt í sýningarför Leikfimifélags Akureyrar til Reykjavíkur 1932. Hann var lengi meðal fremstu skákmeistara Norðlendinga, var formaður Skákfélag Akureyrar lengur en nokkur annar en 1973 gerði félagið hann að heiðursfélaga. Þá sat hann í stjórn Skáksambands Íslands um skeið. Hann tefldi á skákmótum í hálfa öld, m.a. í landsliðflokki á Skákþingi Íslands og á Norðurlandamóti. Hann varð skákmeistari Norðlendinga árið 1961.
Jón var mikill leiklistarunnandi, tók virkan þátt í leikstarfsemi starfsfólksins á Gefjun, starfaði með Leikfélags Akureyrar í fjóra áratugi, lék í mörgum uppfærslum þess á 1942-71 og var formaður þess á 50. afmælisárinu. Hann var auk þess ágætur söngmaður og lék vel á harmonikku.
Eiginkona Jóns var Gefn Steinólfsdóttir Geirdal frá Grímsey. Þau eignuðust fimm börn. Jón lést 15.2. 1981.