MÆTTU ef þú vilt hafa áhrif á launakröfu þína!!!

Fyrsti fundurinn verður á Grenivík
Fyrsti fundurinn verður á Grenivík

Eining-Iðja mun halda sex fundi á félagssvæðinu í næstu viku þar sem leitað verður eftir hugmyndum að launaþáttum í kröfugerð félagsins. Fundirnir verða dagana 12. til 14. janúar, tveir fundir á dag. Allir fundirnir verða túlkaðir yfir á pólsku.

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að mikilvægt sé að félagsmenn mæti og komi með hugmyndir í þá vinnu sem nú fer fram hjá félaginu. „Við verðum með fundi á sex stöðum á svæðinu, á Grenivík, Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði, Hrísey og á Dalvík. Þarna hafa allir félagsmenn tækifæri til að mæta á fund í sinni heimabyggð og koma sínum skoðunum eða kröfum á framfæri varðandi launaliði kröfugerðar félagsins. Það er mjög mikilvægt að félagsmenn sýni samstöðu í verki og mæti á þessa fundi. Við verðum að muna að félagið er fólkið sem í því er og að við sem erum í forystu þess erum að vinna fyrir félagsmennina. Ábyrgðin er okkar allra. Ég trúi ekki öðru en að það verði góð mæting á fundina, við erum jú að tala um launin okkar, afkomu okkar. Í nýlegri könnun sem Capacent gerði fyrir félagið kom í ljós að 65% aðspurða voru tilbúnir að fara í verkfall til að knýja á um bætt kjör ef á þarf að halda þannig að ég trúi ekki öðru en að þeir deili með okkur kröfum sínum líka,“ sagði Björn.

Laugardaginn 17. janúar er búið að boða félagsmenn sem eru í samninganefndinni, trúnaðarráði auk trúnaðarmanna sem ekki eru í þessum nefndum á fund í Hofi á Akureyri. Fundurinn verður með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem farið verður yfir þær hugmyndir sem fram koma á þessum sex fundum. Mánudaginn 19. janúar mun svo samninganefndin koma saman og ganga endanlega frá kröfugerðinni sem félagið mun svo senda inn til Starfsgreinasambandsins sem hefur samningsumboð fyrir Einingu-Iðju.


Mánudagurinn 12. janúar

  • Grenivík: Gamli barnaskólinn kl. 17:00
  • Akureyri: Í salnum á 4. hæð Alþýðuhússins kl. 20:00

Þriðjudagurinn 13. janúar

  • Ólafsfjörður: Tjarnarborg kl. 17:00
  • Siglufjörður: Skrifstofa félagsins kl. 20:00

Miðvikudagurinn 14. janúar

  • Hrísey: Veitingastaðurinn Brekka kl. 17:00
  • Dalvík: Mímisbrunnur kl. 20:00

Dagskrá*:

  1. Kröfugerð félagsins - umræða um launaþætti
  2. Önnur mál.
    *ATH! Á Grenivík og Ólafsfirði þarf einnig að kjósa svæðisfulltrúa og varamann hans. 

MÆTTU ef þú vilt hafa áhrif á launakröfu þína!!!