Á vef ASÍ segir að Alþingi hyggst leiðrétta afturvirkt mistök sem gerð voru við breytingar á lögum um almannatryggingar sl. haust, sem þýðir að fjöldi lífeyrisþega mun nú þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir. Málið hefur verið afgreitt úr velferðarnefnd þingsins með miklu flýti án þess að nægilegt tækifæri hafi gefist til umræðu og umsagna.
Alþýðusambandið gerir ekki efnislegar athugasemdir við þær breytingar sem í frumvarpinu felast enda eru þær í samræmi við markmið laganna en mótmælir því hins vegar harðlega að til standi að leiðrétta greiðslur almannatrygginga afturvirkt til 1. janúar sl. vegna yfirsjónar við breytingar á lögum síðastliðið haust. Slík íþyngjandi afturvirk aðgerð gagnvart lífeyrisþegum samræmist ekki reglum íslenskra laga um afturvirkni.
„Alþingi setur lög. Það geta verið ranglát lög, það geta verið lög sem ná ekki upphaflegum tilgangi. Aðal atriðið er að Alþingi setur lög og skapar með því rétt sem ekki verður aftur tekinn með afturvirkum hætti. Þingmenn verða að átta sig á þessu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.