Líðan starfsfólks og leiðir til velsældar

Vert er að benda á að VIRK, Embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins bjóða upp á morgunfund um heilsueflandi vinnustaði í streymi á morgun, fimmtudaginn 25. febrúar, milli kl. 8.15 og 10:00.

Umfjöllunarefni fundarins er líðan starfsfólks á vinnumarkaði og leiðir til að efla velsæld á tímum Covid, hvað vinnustaðir geti gert til að bæta líðan starfsfólks.

Framsögur flytja þær Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri hjá embætti landlæknis, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Samkaupum og Hildur Atladóttir, leiðtogi heilbrigðismála hjá Ísal.

Morgunfundurinn, sem streymt verður á vefsíðum stofnananna þriggja, er sá sjöundi í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum og hluti af samstarfi VIRK, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.

Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði.