Mjög góð mæting var á námskeið sem félagið hélt á veitingastaðnum Kontornum á Grenivík í gær fyrir erlenda félagsmenn þar sem m.a. var farið yfir hvað eigi að koma fram á launaseðlinum og hvernig eigi að lesa út úr honum.
Námskeiðið var túlkað yfir á pólsku. Leiðbeinendur voru formaður og varaformaður félagins, Björn Snæbjörnsson og Anna Júlíusdóttir.
Björn sagði að kallað hefði verið eftir þessu námskeiði frá félagsmönnum á Grenivík og miðað við hvernig til tókst þá verður það haldið víðar en þó sennilega ekki fyrr en á næsta ári. "Þarna fórum við, með aðstoð túlks, yfir uppbyggingu launaseðla og hvernig eigi að lesa úr öllum þeim upplýsingum sem á þeim eru. Einnig fórum við aðeins yfir helstu réttindi og skyldur á vinnumarkaði."