Leiðréttir kauptaxtar fyrir starfsfólk ríkisins

Eins og áður hefur verið greint frá þá var skrifað undir samkomulag í desember síðastliðinn um launaþróunartryggingu vegna starfsfólks hjá ríkinu, en samkvæmt tryggingunni hækka laun ríkisstarfsmanna innan aðildarfélaga SGS um að meðaltali 1,8% afturvirkt frá 1. janúar 2017. Síðastliðinn föstudag undirritaði SGS svo samkomulag við ríkið um hvernig hækkunin verður nýtt. Samkvæmt samkomulaginu eru allir starfsmenn færðir í 6. þrep launatöflunnar, sem er efsta þrepið og taflan hækkuð öll um 1%. Þetta gerir það að verkum að fólk ber aðeins misjafnt úr býtum eftir aldri og röðun í launatöflu, en launatöflur eru þá ekki háðar lífaldri lengur og því verður auðveldara að breyta töflunni til samræmis við aðra í næstu kjarasamningum. Félagsmenn sem starfa við ræstingar fá 1,8% hækkun á tímamælda og flatamælda ákvæðisvinnu. Leiðréttingin kemur til útborgunar á flestum stöðum þann 1. mars.

Búið er að leiðrétta áðurútgefna kauptaxta þar sem launataflan hefur verið leiðrétt afturvirkt frá 1. júní 2017. Kauptaxtana má nálgast hér.