Launamundur kynjanna

Á veg SGS segir að skv. gögnum frá Eurostat vinna konur í löndum Evróusambandsins sér inn að meðaltali 16,4% minna en karlar fyrir hverja vinnustund. Óleiðréttur launamunur kynjanna mælist minnstur í Slóveníu, en mestur mælist hann í Eistalandi – alls 30%. Þessar tölur gefa til kynna að launamunur kynjanna er ennþá mikill og þróunin í átt að jafnræði í þeim málum er afar hæg. Það er umhugsunarefni að þessar tölur skuli ennþá vera svo háar, sérstaklega þegar horft er til sífellt hærra menntunastigs og aukinnar reynslu kvenna á vinnumarkaði.

Samkvæmt nýlegri launakönnun evrópskra samtaka launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði (EFFAT) sem samtökin gerðu meðal sinna aðildarfélaga/-sambanda mældist launamunur kynjanna enn meiri en hjá Eurostat, eða allt að 29%. Þess má geta að Starfsgreinasambandið er aðili að EFFAT.  Á þingi samtakanna, sem haldið var síðast liðið haust voru launamál kynjanna til umræðu þar sem m.a. voru mótaðar tillögur sem eiga að stuðla að því að vinna bug á þessu viðvarandi vandamáli og misrétti, sem launamunur kynjanna er. Nánari upplýsingar um niðurstöður þingsins má finna á vefsíðu EFFAT.