Í morgun sendi félagið launakröfu Einingar-Iðju vegna kjarasamnings SGS við SA til samninganefndar Starfsgreinasambandsins. Í síðustu viku stóð félagið fyrir sex opnum fundum á jafnmörgum stöðum á félagssvæðinu og laugardaginn 17. janúar sl. hélt félagið fund í Hofi á Akureyri þar sem saman voru komnir félagsmenn sem sitja í samninganefnd félagsins og trúnaðarráði auk þeirra trúnaðarmanna sem ekki sitja í þessum nefndum.
Þessir fundir voru hugsaðir m.a. sem tækifæri fyrir alla félagsmenn til að mæta á fund í heimabyggð og koma fram með hugmyndir að launakröfum félagsins í kröfugerð sem send var til samninganefndar Starfsgreinafélagsins fyrr í dag. Í gær var fundur í samninganefnd þar sem farið var yfir þau gögn sem söfnuðust á fundunum og gengið frá launakröfunum í kröfugerðina.
Samninganefnd SGS mun hittast næsta fimmtudag þar sem farið verður yfir kröfugerðir félaganna og þær samræmdar til að móta sameiginlega kröfugerð sambandsins.