Vert er að minna á að búið er að setja inn nýja kauptaxta sem tóku gildi þann 1. janúar sl. inn á heimasíðuna.
Laun og launatengdir liðir skv. núgildandi kjarasamningum hækkuðu þann 1. janúar 2021 sem hér segir:
Starfsfólk á almennum vinnumarkaði
Þann 1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar á almenna markaðinum um kr. 24.000 og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækkuðu um kr. 15.750. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækkuðu um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækkuðu lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 351.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2021.
Starfsfólk sveitarfélaga
Þann 1. janúar 2021 hækkuðu kauptaxtar hjá sveitarfélögunum um kr. 24.000.
Starfsfólk ríkisins
Ný launatafla tók gildi hjá ríkinu 1. janúar 2021 sem byggir á álagsþrepum í stað aldursþrepa. Varpa þarf störfum í nýju töfluna, tryggt verður að enginn sem raðast fyrir neðan launaflokk 17 í dagvinnutaxta í desember 2020 fái minna en sem nemur kr. 24.000 hækkun á dagvinnulaunum. Aðrir fá að lágmarki 18.000 kr. hækkun. Í einhverjum tilvikum gæti þurft að varpa einstaklingi í hærri flokk/þrep en röðunarforsendur gera ráð fyrir. Til að fá frekari hækkun á röðun verður viðkomandi fyrst að uppfylla skilyrði samkvæmt nýjum röðunarforsendum.
Félagið hvetur félagsmenn til að fylgjast vel með á launaseðlinum hvort þessar launahækkanir skili sér ekki alveg örugglega til þeirra.