Á heimasíðu ASÍ má finna eftirfarandi frétt: Mikið hefur verið fjallað að undanförnu um laun á Íslandi í samanburði við kjör launafólks á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. Undanfarin ár hafa hagstofur innan ESB og EES landanna unnið að samræmingu hagskýrslugerðar um laun og tekjur einstakra starfsstétta. Því er orðið mun auðveldara að bera saman laun eftir starfsstéttum en áður var. Í þessari úttekt er litið til reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013.
Það hallar á lágtekjuhópana á Íslandi
Það er athyglisvert að skoða launamun á Norðurlöndunum eftir einstaka starfsstéttum. Á meðfylgjandi mynd má sjá muninn á dagvinnulaunum á Íslandi og að meðaltali á hinum Norðurlöndunum eftir að tekið hefur verið tillit til bæði verðlags og skatta.
Það er áberandi að munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá tekjulægri hópunum. Þannig eru og dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Hluta af þessum mun má skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en á hinum Norðurlöndunum og því verður hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér á landi.
Ef litið er á dagvinnulaun sérfræðinga eru þau um 3-5% lægri hér á landi en í hinum löndunum, hæst eru laun sérfræðinga í Noregi en lægst í Svíþjóð.
Mestur munur á dagvinnulaunum er hins vegar gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki. Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.
Þá er einnig áberandi á myndinni að meiri munur er á launum kvenna en karla í öllum starfsstéttum. Það bendir til þess að óleiðréttur launamunur kynjanna sé meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.
Ítarlegri fréttaskýringu má sjá hér.