Landnemaskólinn í heimsókn

Síðastliðinn laugardag koma nokkrir nemendur af erlendum uppruna sem eru í Landnemaskólanum í Fjallabyggð ásamt kennara í heimsókn á skrifstofu félagsins á staðnum. Þar voru einnig mættir Björn formaður félagsins, Margrét starfsmaður skrifstofunnar og Ásgrímur upplýsingafulltrúi félagsins. Björn kynnti fyrir þeim starfsemi félagsins og almenn réttindi og skyldur á vinnumarkaði. 

Nánar um Landnemaskólann í Fjallabyggð
Nú í vetur munu Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, SÍMEY og sveitarfélagið Fjallabyggð bjóða upp á Landnemaskólann í Fjallabyggð. Um er að ræða 80 klukkustunda, fjölþætt og öflugt námstilboð fyrir fólk af erlendum uppruna. Námið hófst 23. nóv. 2015 og stendur til 12. mars 2016. Kennsla fer fram á mánudögum og miðvikudögum kl. 15:00 – 18:00, auk þriggja fræðsluferða um helgar. 


Markmið námsins er efla íslenskukunnáttu, tölvufærni og þekkingu á íslensku samfélagi.

Í íslenskukennslunni er lögð áhersla á talmál daglegs lífs, lesmál með áherslu á texta í opinberum gögnum og dægurmál líðandi stundar. Í skrifuðu máli er áherslan á textagerð ýmissa opinberra gagna.

Í tölvufræðslunni er annars vegar farið í almenna notkun tölvunnar og helstu forrita hennar og hins vegar að leita uppi og nýta margvíslegar þjónustu- og upplýsingasíður sem koma að gagni í daglegu lífi og starfi.

Í tengslum við námið kynnast nemendur lykilstofnunum samfélagsins með kynningum og heimsóknum. Jafnframt er hugsunin að nemendur kynni eigin vinnustaði sem lið í fræðslu um það samfélag þeir lifa og starfa í.