Í gær birtist eftirfarandi frétt á vef Starfsgreinasambands Íslands: Í aðdraganda kjarasamninga er rýnt í fjölda gagna og talna.
Samtök atvinnulífsins kjósa að rýna í lágmarkslaun og færa fyrir því rök að þau hafi hækkað í
kjarasamningum umfram önnur laun síðustu átta ár. Þetta er rétt hjá Samtökum atvinnulífsins en ef samtökin ætla að gera
því skóna að kjarasamningsbundin lágmarkslaun séu orðin nógu há þarf að bæta við ýmsum tölum og
viðmiðum.
Fyrst ber að nefna að sem betur fer eru ekki allir á lágmarkslaunum í landinu. Til koma hærri taxtar vegna starfsaldurs, aldurs og hærri taxtar í
ákveðnum starfsgreinum. Þar að auki semur fólk iðulega um hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir enda eru lágmarkslaun og önnur
kjarasamningsbundin laun aðeins „gólfið“ sem öllum er óheimilt að fara undir. Sem sagt hið algera lágmark. Þetta algera lágmark er
hins vegar veruleiki allt of margra. Í dag eru kjarasamningsbundin lágmarkslaun (lágmarkstekjutrygging á mánuði fyrir fullt starf) 193.000 krónur. Ef
ekki verður tekin ákvörðun um að segja upp samningum í janúar hækkar þessi tala um 11.000 krónur þann 1. febrúar
næstkomandi og fer þá upp í 204.000 krónur. Það eru ekki háar tekjur.
Verkalýðshreyfingin býr sig einnig undir kjarasamninga og hluti af því er að greina stöðu launafólks. Þannig hafa Flóabandalagið
(Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) hér á Suðvesturhorninu, Eining-Iðja á Akureyri og Afl
á Austurlandi látið gera kannanir á raunverulegum tekjum sinna félagsmanna. Innan vébanda þessara félaga er fólk sem hefur ekki hlotið
formlega menntun á sínu starfssviði. Ef könnun Flóans er skoðuð kemur í ljós að 21% svarenda voru með 200 þúsund krónur
eða minna í dagvinnulaun í ágúst síðastliðnum. Ef talan er greind eftir kynjum þá eru 27% kvenna með laun undir 200 þúsund
og 15% karla. Ungt fólk er þarna í meirihluta. Ef skoðaðar eru starfsgreinar þá eru 40% þeirra sem unnu við ræstingar með innan við
200 þúsund krónur í dagvinnulaun, aðrir stórir hópar eru umönnun, mötuneyti og veitingastörf og þjónustu-/sölu- og
afgreiðslustörf. Ef skoðuð eru meðaltalslaun dagvinnu þá eru tekjulægstu hóparnir í störfum á sviði umönnunar,
ræstinga auk leiðbeinenda.
Það skal engan undra að þetta er einmitt sá hópur sem eru ósáttastur við sín laun og hefur mestar áhyggjur af
fjárhagsstöðu sinni sökum lágra launa. Um 29% þeirra sem eru með heildartekjur undir 200 þúsundum hafa þurft að leita aðstoðar
vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta er sá hópur sem býr síst í eigin
húsnæði (fjórðungur býr í leiguhúsnæði og fjórðungur í foreldrahúsum) en greiðir að meðaltali 115.358
krónur í húsaleigu. Þær kannanir sem hafa verið gerðar á Norðurlandi og Austurlandi gefa vísbendingar um svipaða stöðu
þar.
Þegar talað er um hvað kaupmáttur lægstu launa hafi aukist mikið er því nauðsynlegt að hafa í huga að lágmarkslaun í
landinu eru langt innan við það sem þarf til framfærslu en engu að síður er hluta vinnandi fólks ætlað að lifa á þeim.
Það er hópur fólks sem fær svo lítið greitt fyrir fulla vinnu að það þarf að sækja aðstoð til að eiga fyrir
nauðsynjum. Er það sæmandi fyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum að kaupa vinnu svo lágu verði? Er ekki tilefni til að einblína
á hækkun lægstu launa á meðan staðan er eins og raun ber vitni?