Kynning í VMA – þrettánda árið í röð

Þorsteinn E. Arnórsson, þjónustufulltrúi hjá Einingu-Iðju, fór í vikunni í fyrstu tvær skólaheimsóknir í Verkmenntaskólann á Akureyri í vetur, þar sem hann kynnir réttindi og skyldur á vinnumarkaði fyrir yngstu nemendur skólans. Þorsteinn mun á næstunni fara í 11 slíkar heimsóknir í skólann, en hver heimsókn stendur yfir í tvær kennslustundir.

Þetta er 13 árið í röð sem félagið er með slíka kynningu í skólanum og segir Þorsteinn að greinilegt sé að þær séu til gagns. „Við starfsmenn félagsins höfum tekið eftir mikilli breytingu til batnaðar í sambandi við hvað unga fólkið er orðið virkara hvað þessi mál snertir. Það veit nú betur hvar það á að spyrjast fyrir um réttindi sín og eins vita þau mun betur en áður hverju þau eiga rétt á. Þegar krakkarnir fara út á vinnumarkaðinn þá skiptir miklu máli að þekkja og vita um réttindi sín.”

Þorsteinn segir að í þessum heimsóknum sé farið yfir gildi þess að vera í stéttarfélögum og eins er farið yfir almenn réttindi og skyldur á vinnumarkaði. “Undirtektir unglinganna eru mjög góðar og skapast oft góðar umræður um þessi mál. Undanfarin 17 ár hafa starfsmenn félagsins einnig farið í alla 10. bekki á Eyjafjarðarsvæðinu með fræðslu,” segir Þorsteinn og bætir við að þessi fræðsla skipti heilmiklu máli.“