Góð mæting var á fund í gær sem félagið hélt í Hofi á Akureyri þar sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, kynnti samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga sem heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu nýlega undir.
Áhugi fundargesta var mikill og urðu miklar og góðar umræður um samkomulagið eftir að Gylfi hafði lokið máli sínu. Gylfi sagði m.a. að markmið samkomulagsins væri að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta, að með samkomulaginu væri lagður grunnur að sátt á vinnumarkaði, auknu samstarfi og minni átökum. Jafnframt sagði hann að stefnt væri að auknum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika í landinu.
Gylfi sagði að hækkun atvinnutekna á Íslandi hefur að jafnaði verið tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum síðustu 15 árin samt hefur kaupmáttur atvinnutekna aukist helmingi minna hér en þar á þessum 15 árum, eða 0,8% á ári í stað 1,7% á hinum Norðurlöndunum. Þessi munur virkar ekki mikill við fyrstu sýn, en uppsafnað munar þetta ríflega 14% í hreinum kaupmætti á tímabilinu. Ástæðan er sú að verðbólga hér á Íslandi hefur 5,5% að meðaltali samanborið við 1,8% á hinum Norðurlöndunum á þessum tíma. Það hefur svo leitt af sér að frá aldamótum hefur gengi íslensku krónunnar fallið um 50% en gengi mynta hinna Norðurlandanna haldist nánast óbreytt gagnvart evru. Bein afleiðing þessarar miklu verðbólgu og efnahagslegs óstöðuleika er að á Íslandi hafa vextir að jafnaði verið þrefalt hærri en á hinum Norðurlöndunum sem hefur leitt til þess að íslenskt launafólk þarf að ráðstafa næstum fimmtungi tekna sinna í aukna greiðslubyrði lána. Því hefur nýlegt samkomulag um ný og breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga - nýtt samningalíkan - verið samþykkt með þá von að ná hér betri stöðugleika og leggja grunn að því að geta aukið kaupmátt launa á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis og lægri vaxta.
Hér má sjá viðtal við Gylfa í sjónvarpi ASÍ þar sem hann fjallar um samkomulagið.