Kynbundinn launamunur nú 1,7% - var 11,2% í fyrra

Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera. Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar ársins.

Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. um heildarlaun og dagvinnulaun viðkomandi. Fleiri segjast vera sátt við launin núna en áður, eða 39,5% miðað við 29,2% í fyrra og 31,2% árið þar áður. 30,9% eru ósátt með launin miðað við 45,7% í fyrra og 41,5% árið 2018. Fleiri konur en karlar eru ósáttari með launin og eins frekar eldri en þeir sem yngri eru. 

Heildarlaun
Hvað varðar heildarlaun þá voru þau að meðaltali kr. 545.012 í ár miðað við kr. 523.273 í fyrra og kr. 499.182 árið 2018. Meðalhækkun á heildarlaunum á árinu er 4,2%. 

Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með um 575 þúsund krónur en voru í fyrra með um 561 þúsund sem er hækkun um 2,5%. Konurnar eru með um 510 þúsund krónur en í fyrra voru þær með um 486 þúsund sem er hækkun um 5%. Hafa ber í huga að samkvæmt könnuninni þá vinna karlar aðeins meiri yfirvinnu en konur.

Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í 100% starfshlutfalli eru konur að jafnaði með um 10,6% lægri heildarlaun heldur en karlar. Meðalheildargreiðslur karla voru rúmar 567 þúsund krónur, en meðalheildargreiðslur kvenna tæpar 507 þúsund krónur. Í fyrra var munurinn 16,3%.

Þegar kynbundinn launamunur er skoðaður kom í ljós að hann er nú 1,7% miðað við 11,2% í fyrra. Þetta er minnsti munur frá því félagið byrjaði á þessum könnunum. Árið 2013 mældist munurinn 3,9%. Til að reikna leiðréttan kynbundinn launamun í könnuninni er notuð línuleg aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt er fyrir áhrif fjögurra þátta á laun, þ.e. aldur, menntun, starf og fjölda vinnustunda á viku. 

Dagvinnulaun
Dagvinnulaunin hafa aukist um 8,2% en þau eru nú að meðaltali kr. 427 þúsund miðað við kr. 395 þúsund í fyrra og kr. 383 þúsund árið 2018. 21,2% eru með 350.000 eða lægra, 59,1% eru með laun á bilinu 350.000 til 499.000 og 19,7% eru með 500.000 eða meira.

Ef meðal dagvinnulaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 439.593 en voru í fyrra með kr. 401.600, sem er 9,5% hækkun. Konurnar eru með kr. 413.068 en í fyrra voru þær með kr. 388.145, sem er 6,4% hækkun.  

Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt.  

Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.