Á þingi Starfsgreinasambands Íslands kom fram skýr krafa um hækkun lægstu launa. Ljóst er að hækkun lægstu launa hefur borið góðan árangur í undangengnum kjarasamningum. Það hefur orðið til þess að minnka bilið milli þeirra launahæstu og launalægstu. Þar að auki eru að stórum hluta til konur sem sinna lægst launuðu störfunum og því verður það til að minnka launamun kynjanna að hækka lægstu launin. Þá ályktaði þingið einnig um nauðsyn þess að láta nám endurspeglast betur í launum, en fjöldi almenns verkafólks sækir styttri námsleiðir sem gerir það hæfara í sínum störfum.
Í aðdraganda kjarasamninga bera atvinnurekendur sig illa og gamalkunnur söngur hefst um að atvinnulífið sé ekki aflögufært til að hækka laun. Launafólk á að axla ábyrgð á stöðugleika og halda niðri verðbólgu með hóflegum kröfum. Við þessu segjum við að launafólk á Íslandi hefur sannanlega axlað ábyrgð enda hafa laun ekki hækkað í takt við aukna skuldabyrgði og dýrtíð undanfarin ár. Hið opinbera og atvinnurekendur hafa hins vegar ekki axlað sömu ábyrgð með ómálaefnalegum verðhækkunum á vöru og þjónustu. Aukin gjaldtaka í velferðarkerfinu verður heldur ekki til þess að auka vilja launafólks til að „axla ábyrgð“
Útflutningsgreinarnar hafa dafnað vel eins og sést á miklum arðgreiðslum í fiskiðnaðinum síðustu ár. Það er eðlilegt að launafólk fái hlutdeild í greinum þegar vel gengur. Þá er það verkefni fyrir atvinnurekendur og hreyfingu launafólks að lyfta ferðaþjónustunni þannig að hún verði að alvöru atvinnugrein. Hingað til hefur hún byggt að stórum hluta til á vinnuafli skólafólks með litla formlega menntun í greininni og óþarfi er að tíunda að svört atvinnustarfsemi þrífs allt of vel innan ferðaþjónustunnar. Það er okkar krafa að greinin verði að alvöru atvinnugrein, fólki gefst tækifæri til að mennta sig og auka færni sína innan greinarinnar og fái örugga og góða vinnu við góð kjör og skilyrði. Þetta verður okkur öllum til framdráttar, eykur þjónustu og styrkir ferðaþjónustuna.
Margt var rætt á þingi Starfsgreinasambandsins og mikill samhugur í félögum af öllu landinu að sameinast í baráttunni fyrir bættum kjörum. Skattamál voru ofarlega á baugi og ályktaði þingið að það ætti að viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og skattalækkanir ættu að koma þeim tekjulægstu til góða. Það er reyndar þveröfugt við tillögur sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, þar sem millitekju- og hátekjufólk fær skattalækkanir en ekki þeir tekjulægstu. Nær væri að hækka persónuafsláttinn en það er skýr krafa almenns verkafólks að svigrúm til skattabreytinga verði nýtt þannig.
Það veganesti sem þingið veitti forystu Starfsgreinasambandsins verður nýtt í komandi kjarasamninga. Hægt er að kynna sér betur ályktanir þingsins hér.
Björn Snæbjörnsson
Formaður Starfsgreinasambands
Íslands