Kræsingar frá Ketilkaffi

Í síðasta jólablaði félagsins má m.a. finna eftirfarandi uppskriftir, en í ár fengum við Þórunni Eddu og Eyþór, sem reka Ketilkaffi í Listasafninu á Akureyri, til að gefa lesendum uppskriftir. Ketilkaffi opnaði í júní síðastliðnum. Þar er lögð áhersla á sérvalið gæðakaffi, náttúruvín, spennandi kokteila og mat gerðan úr fersku gæðahráefni, en mikið er lagt upp úr að gera sem flest frá grunni. Þau baka sitt eigið súrdeigsbrauð sem hefur hlotið mikið lof og súkkulaðibitakökurnar eru umtalaðar. Alla daga er hægt að gæða sér á hágæða súrdeigssamlokum, nýbökuðu bakkelsi og gómsætri fiskisúpu, en oft er ýmislegt annað spennandi á matseðlinum og er um að gera að fylgja þeim á samfélagsmiðlum en þar segja þau frá því sem er í boði hverju sinni. Þessa dagana er hægt að gæða sér á ekta dönsku smurbrauði í hátíðarbúningi, en jólasmurbrauðsplattinn hefur hlotið alveg ótrúlegar viðtökur og er mjög vinsæll. Einnig verður hægt að gæða sér á ekta jólaglöggi og piparkökulatte allan desember, verið velkomin á Ketilkaffi. Hægt er að finna Ketilkaffi á facebook og instagram undir @ketilkaffi.

             

 

   

 

Sítrónu- og ólífuolíukaka
Hér er uppskriftin af einni af okkar vinsælustu kökum, sítrónu- og ólífuolíukökunni. Þessi kaka er með þeim einfaldari, öllum hráefnunum er einfaldlega hellt í skál og hrært í með písk, ekkert tilstand. En hún er ótrúlega góð enda gerð úr gæðahráefnum. Sítróna og limoncello gefa mikinn ferskleika og ólífuolían gerir kökuna dúnamjúka og að hún helst mjúk lengi. 

Hráefni

  • 285 g ólífuolía
  • 3 egg
  • Safi úr einni sítrónu
  • Börkur af einni sítrónu
  • 270 g mjólk
  • 2 tsk. sítrónudropar
  • 340 g sykur
  • 275 g hveiti
  • 1 ½ tsk. salt
  • 60 g limoncello
  • ½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi

Stillið ofninn á 165°c. Hellið öllum hráefnum í skál og blandið saman, nóg er að nota písk til að hræra, ekki þarf hrærivél eða handþeytara. Setjið bökunarpappír í 24 cm hringform og hellið deiginu í. Bakið í 60-65 mínútur, gott er að stinga prjóni í miðjuna að þeim tíma liðnum og athuga hvort kakan er bökuð í gegn. Hægt er að setja einfaldan glassúr eða rjómaostakrem á kökuna þegar hún hefur kólnað, en það er þó ekki nauðsynlegt, hún er góð ein og sér.

Súrdeigssnúðar
Þessir snúðar eru ótrúlega góðir en þeir taka líka langan tíma, þar sem bragðið í deiginu fær að þroskast lengi. Við mælum með að taka eina helgi í að dunda sér í þessu ásamt tilfallandi verkefnum sem sinna þarf á heimilinu.  

Deig

  • 230 g mett súrdeigsmóðir
  • 170 g mjólk, volg
  • 1 stórt egg
  • 60 g smjör, við stofuhita
  • 330 g hveiti
  • 60 g heilhveiti
  • 50 g sykur
  • 1,5 tsk. salt
  • (3 g þurrger ef súrinn er ekki alveg nógu hress)

Fylling

  • 160 g púðursykur
  • 30 g hveiti
  • 1 msk. kanill
  • 1 msk. smjör, brætt
  • Salt á hnífsoddi

Glassúr

  • 170 g flórsykur
  • 20 g smjör
  • ½ tsk. vanilludropar
  • 1-2 msk mjólk
  • Salt á hnífsoddi

Aðferð

  1. Blandið saman öllum hráefnum og hnoðið þar til þau eru orðin að klístruðum deigklumpi (2-3 mínútur í hrærivél á lægstu stillingu). Látið deigið hvílast í 20 mínútur, 
  2. Hækkið stillinguna á hrærivélinni og hrærið aftur í 3-4 mínútur eða þangað til að þýð deigkúla hefur myndast.
  3. Leggið blautt viskastykki yfir skálina og látið hefast í fjórar klst, á klukkutíma fresti þarf að brjóta deigið saman, toga það og brjóta saman, svokölluð samanbrotsaðferð til þess að styrkja glúteinmyndunina í deiginu.
  4. Meðan deigið er að hefast: blandið öllum innihaldsefnunum í fyllinguna í skál og hrærið þangað til áferðin er eins og blautur sandur.
  5. Þegar deigið hefur lokið hefun þarf að berja það niður og fletja það út með kökukefli, reynið að mynda rétthyrning ekki þykkari en ½ cm
  6. Dreifið úr fyllingunni.
  7. Rúllið deiginu upp.
  8. Skerið deigið í u.þ.b. 5cm þykka snúða og raðið þeim í form sem búið er að smyrja með feiti. Leggið klæði yfir formið og leyfið snúðunum að hefast aftur þangað þeir verða loftkenndir (2-3 klst)
  9. Setjið snúðana, með klæðinu yfir inn í ísskáp og geymið yfir nótt.
  10. Stillið ofninn á 200°C, takið snúðana úr ísskápnum og leyfið þeim að taka sig á meðan ofninn er að hitna, bakið í 20-25 mínútur
  11. Bakið þar til snúðarnir eru orðnir gylltir og náð kjarnhita 90°C
  12. Leyfið snúðunum að kólna í 10 mínútur áður en glassúrinn er settur ofan á.