Það var líf og fjör sl. laugardag í sal Einingar-Iðju á Akureyri þar sem konur á Norðurlandi hittust til skrafs og ráðagerða. Tilefnið var námskeiðið „Konur taka af skarið!“ sem AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa, Starfsgreinasambandið og JCI Sproti standa fyrir. Verkefnið fékk styrk úr Jafnréttissjóði Íslands og er markmið þess að hvetja konur til þátttöku og áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar.
Viðamikil dagskrá var á námskeiðinu sem er hugsað sem samræðuvettvangur þar sem eru innlegg um ákveðin málefni koma frá fyrirlesurum en þátttakendur miðla af sinni viðamiklu reynslu og þekkingu ekki síður en fyrirlesararnir.
Dagskráin hófst á því að Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, hélt erindi um kynjakerfið undir yfirskriftinni „Að bjóða kynjakerfinu birginn“. Næst fjallaði Drífa Snædal, forseti ASÍ, um stöðu verkalýðsbaráttunnar í dag og lýsti uppbyggingu verkalýðsfélaganna. Viktor Ómarsson, hjá JCI Sprota, sá um leiðtogaþjálfun og fjallaðu um hvernig er hægt að hafa áhrif og koma sínu á framfæri. Viktor fékk þátttakendur í margskonar æfingar og verkefni sem reyndu á. Síðasti hluti námskeiðsins var í höndum Drífu Snædal sem ræddi við þátttakendur um sína reynslu af því að vera kona og starfa innan verkalýðshreyfingarinnar.
Bergljót Þrastardóttir, stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar var fundarstjóri.
Námskeiðið á laugardag var fyrsta námskeiðið af sex en samskonar námskeið verða haldin á Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík, Ísafirði og Borgarnesi. Námskeiðin eru opin öllum konur sem eru félagar í Starfsgreinasambandi Íslands eða í starfsmannafélögum Sveitafélaganna, þeim að kostnaðarlausu.