Til þess að ná fram sem bestum upplýsingum um vilja félagsmanna Einingar-Iðju varðandi það hvað leggja beri áherslu á við gerð næstu kjarasamninga ákvað félagið að standa fyrir könnun dagana 6. til 10. maí á meðal félagsmanna. Þetta hefur verið gert fyrir síðustu samninga og gefið góða raun. Þarna gefst félagsmönnum kostur á að merkja við fimm áhersluatriði af 16 á lista sem dreift verður af trúnaðarmönnum félagsins og setja þau í röð eftir mikilvægi þeirra. Trúnaðarmenn félagsins sjá um að koma spurningalistum á samstarfsmenn sína.
Ef einhver fær ekki spurningalista í vikunni kíkið þá endilega við á einhverja af skrifstofum félagsins félagsins eða hafið samband við svæðisfulltrúa á ykkar svæði til að fá lista.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að árangur í samningum byggist á því að menn standi saman, það gerist ekki með því að örfáir einstaklingar sjái um málið. “Við gerðum sambærilegar kannanir á meðal félagsmanna okkar árið 2007 og 2010 sem tókust mjög vel. Þá barst fjöldi svara til okkar og ég vona að það verði eins í ár”
Eins og framar segir þá er könnunin gerð á ábyrgð trúnaðarmanna, en þeir sjá um að samstarfsmenn fái spurningalista í hendur og eins sjá þeir um að koma svörum til félagsins. „Félagsmenn munu vonandi margir hverjir hafa annað viðhorf til samningaferlisins þegar það hefst og það má telja þessa aðferð vænlega til að fá fram skýran vilja félagsmanna þar sem þeim gefst kostur á að setja fram sín viðhorf í sínu eigin umhverfi, í rólegheitum á kaffistofunni, í stað þess að mæta á fundi og þurfa þar ef til vill að standa frammi fyrir fjölda manns,“ segir Björn og hvetur alla félagsmenn til að gefa sér tíma og svara könnuninni.