Klukkan átta mánudaginn 23. mars nk. hefst rafræn atkvæðagreiðsla um heimild til verkfallsboðunar fyrir félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins, þ.e. á almenna vinnumarkaðinum. Í dag mun Starfsgreinasambandið senda út kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Þegar gögnin berast er nauðsynlegt að skoða þau vel og ef einhverjar spurningar vakna hafa samband við starfsfólk félagsins. Rúmlega 10.000 eru á kjörskrá, þar af 2.280 félagsmenn í Einingu-Iðju.
Að þessu sinni verður um rafræna atkvæðagreiðslan að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir ykkur aðgang að kosningunni. Hver ber ábyrgð á sínu atkvæði, þau eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði ef það glatast.
Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en hefur ekki fengið send gögn er hægt að kæra sig inn. Viðkomandi þarf að hafa samband við Sigrúnu Lárusdóttir á skrifstofu félagsins á Akureyri. Hún sendir málið til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.
Kæru félagar takið afstöðu með því að kjósa um verkfallsboðun. Launafólk í landinu þarf á ykkar kröftum að halda.