Kjaramálaráðstefnur - mikilvægur undirbúningur

Dagana 21. til 22. maí sl. stóð Starfsgreinasambandið fyrir kjaramálaráðstefnu um kjarasamning SGS við Ríkið. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá aðildarfélögum SGS og fór hún fram í húsakynnum sambandsins að Sætúni 1. Björn formaður félagsins og Anna varaformaður sátu ráðstefnuna fyrir hönd Einingar-Iðju.

Á heimasíðu SGS segir að Starfsgreinasambandið hefur á undanförnum mánuðum haldin þrjár kjaramálaráðstefnur í þeim tilgangi að rýna í það sem betur má fara í samningunum og um leið undirbúa komandi kjarasamningsviðræður. Á ráðstefnunum hefur mestum tíma verið varið í samlestur á köflum samninganna en einnig hafa ákveðin atriði verið tekin til sérstakrar umfjöllunar. Starfsmenn SGS hafa unnið úr niðurstöðum ráðstefnanna og munu á næstunni dreifa þeim meðal sinna aðildarfélaga, sem munu m.a. geta nýtt niðurstöðurnar við gerð sinna kröfugerða.

Kjarasamningagerð undanfarinna ára hefur sætt töluverðri gagnrýni, m.a. fyrirkomulag viðræðnanna og áhrif kjarasamninga á efnahagslegan stöðugleika. Bent hefur verið á að samningsgerð hafi dregist á langinn sem að einhverju leyti megi rekja til þess að undirbúningur samningsaðila og samningaviðræðurnar hafi ekki verið nægilega markvissar.

Í ljósi þess hafa samningsaðilar unnið að því undanfarið að skoða hvernig haga megi undirbúningi og viðræðuferlinu öðruvísi í þeim tilgangi að gera það markvissara og skilvirkara. Afakstur þeirrar vinnu er m.a. að finna í nýútkominni skýrslu um kjarasamninga og vinnumarkaðinn á Norðurlöndum. SGS hefur ekki látið sitt eftirliggja í þessum efnum og ljóst er að ráðstefnur á borð við þær sem sambandið hefur staðið fyrir undanfarna mánuði munu án efa nýtast við samningagerðina í haust.