Í morgun fór Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, ásamt nokkrum öðrum forsvarsmönnum stéttarfélaga á svæðinu í heimsókn á vinnusvæðið við Vaðlaheiðargöng. Jón Leví Hilmarsson svæðisstjóri tók á móti hópnum, fræddi þá um framkvæmdina og sýndi svæðið. Farið var að gangamunanum og fylgst með þegar borað var í bergið, en nú þegar er búið að sprengja um 6 til 8 metra inn í það. Einnig var starfsmannaaðstaðan skoðuð sem og skrifstofuaðstaðan og mötuneytið. Alls vinna nú um 30 starfsmenn við verkið en verða allt að 60 þegar mest verður. Þrjár vaktir verða settar upp til að sprengja göngin sjálf og verður unnið allan sólarhringinn á tveimur tólf tíma vöktum.
Fyrstu sprengingarnar hafa ekki verið mjög öflugar, en þegar innar verður komið verða hleðslurnar öflugri og er þá áætlað að sprengja 5 metra í einu. Næsta föstudag fer fram formleg sprenging en þá mun ráðherra mæta á svæðið og sjá um sprenginguna.