Kennsla og rannsóknir í starfsendurhæfingu efld

Fulltrúar VIRK, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri undirrituðu nýverið samstarfssamning um ráðningu lektors í starfsendurhæfingu í tengslum við eflingu náms á fræðasviðinu. Skólarnir tveir munu í sameiningu bjóða framhaldsnám í starfsendurhæfingu frá og með haustinu 2016. Þetta kemur fram á heimasíðunni virk.is.

Samningurinn var undirritaður 2. maí síðastliðinn í Háskóla Íslands og kveður á um ráðingu í tímabundið starf lektors sem skiptist í tvær 50% stöður, eina í hvorum skóla. Með ráðningunni, sem verður til tveggja og hálfs árs, er von samningsaðila að efla megi kennslu og rannsóknir á sviði starfsendurhæfingar og styrkja þannig þróun og stefnumörkun á fræðasviðinu. Samkvæmt samningnum er miðað við að námið gagnist starfsemi VIRK sem grundvallast á þverfaglegri, einstaklingsbundinni starfsendurhæfingu samhliða markvissu starfsgetumati.

VIRK mun fjármagna lektorsstöðurnar við skólana með 7,5 milljóna króna framlagi árlega í tvö og hálft ár. Hlutverk lektoranna verður að vinna að uppbyggingu hinnar nýju þverfræðilegu greinar starfsendurhæfingar innan skólanna tveggja og fylgja úr hlaði nýju diplómanámi í starfsendurhæfingu sem er samstarfsverkefni Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. 

Gert er ráð fyrir að námið taki á helstu færniskerðingum starfsgetumissis, stuðli að heildarsýn á velferðarkerfið og hlutverk hverrar stofnunar í starfsendurhæfingarferli einstaklings, veiti þekkingu á matsferli í starfsendurhæfingu og að starfað sé út frá hugmyndafræði endurhæfingar þar sem markvisst er unnið með færniskerðingu samhliða því að styrkleikar eru kallaðir fram.

Upplýsingar um hið nýja framhaldsnám í starfsendurhæfingu sem hefst í haust má finna hér á vefsíðu Háskóla Íslands.

Á myndinni, sem fengin er af virk.is, fagna þau Eydís K. Sveinbjarnardóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, undirritun samstarfssamningsins.