Jón Hjaltason mun rita sögu félagins

Jón og Björn að lokinni undirritun
Jón og Björn að lokinni undirritun

Í gær skrifuðu Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, og Jón Hjaltason sagnfræðingur undir samning vegna ritunar sögu Einingar-Iðju. Stefnt er að bókin verði gefin út á fyrri parti ársins 2018, en Jón á að skila lokauppkasti að handriti að fullbúnu riti þann 1. október 2017.

Á aðalfundi félagsins sem fram fór í apríl var samþykkt með miklum meirihluta fundarmanna að fela stjórn félagsins að láta skrifa sögu verkalýðs/verkalýðsfélaga á félagssvæðinu er standa Einingu-Iðju frá upphafi til vorra daga. Stjórnin ákvað eftir miklar umræður að leita til tveggja sagnfræðinga og varð Jón að lokum fyrir valinu. Jón hefur skrifað og komið að útgáfu fjölda ritverka, þar má m.a. nefna Sögu Akureyrar sem gefin var út í fimm bindum, Sögu Útgerðarfélags Akureyringa og Sögu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Saga Einingar-Iðju á að vera yfirlit um sögu félagsins og forverum þess og þau málefni sem það hefur einkum unnið að frá árinu 1894 til og með árinu 2004. Fjallað verður um tilurð, þróun og skipulag Einingar-Iðju og forvera félagsins en megináhersla verður lögð á lífskjör fólks, lífshætti, viðhorf og félagslegar aðstæður, og hvernig þessir þættir tengjast starfsemi og baráttu Einingar-Iðju og verkalýðshreyfingarinnar.

Mikil tímamót
„Þetta eru mikil tímamót,“ sagði Björn. „Kveikjan að þessu núna var málþing sem við héldum í vetur af tilefni 100 ára afmæli Jóns Ingimarssonar fyrrum formanns Iðju félags verksmiðjufólks. Þar var meðal annars verið að rifja upp söguna og margir sem töluðu um hversu mikils virði það væri að halda í söguna fyrir komandi kynslóðir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi umræða hefur átt sér stað en nú er búið að ganga frá samningi um ritun sögunar og fagna ég því. Stjórnin væntir mikil af þessu samstarfi við Jón þar sem hann þekkir vel til allra aðstæðna og sögu hreyfingarinnar á svæðinu.“

Heimildirnar liggja víða
„Þetta er búið að vera áhugamál hjá mér í langan tíma og oft borist í tal á milli mín og áhugasamra um að þessi saga þyrfti að vera til á prenti,“ sagði Jón að lokinni undirritun. Aðspurður um heimildaöflun sagði Jón að félagið ætti fundargerðarbækur svo að segja frá upphafi sem komnar eru á Héraðsskjalasafnið. „Á safninu er líka til heilmikið af gögnum félaginu sem nýtist vel. Það er góð klásúla í samningnum sem segir að saga félagsins verði í og með atvinnusaga Eyjafjarðarsvæðisins á þessu tímabili, saga samfélagsins og að einhverju leyti saga þjóðar. Þetta er allt samtvinnað þannig að heimildirnar liggja mjög víða. Svo langar mig líka til þess að ná á fólki sem þekkti fólk. Ekki síst til að kynnast heimilum og aðstæðum, eitthvað sem er horfið í dag. Við ætlum að hafa mikið af myndum í bókinni og það væri gaman ef við fyndum myndir sem ekki hafa verið prentaðar áður. Þá er ég að tala um gamlar tækifærismyndir sem jafnvel sýna óvart það sem á þeim er.“
Ef einhver býr yfir minningarbrotum eða á myndir sem tengjast sögunni þá er sá hinn sami hvattur til að hafa samband við Jón. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið jonhjalta@simnet.is eða hringja í síma 862 6515.

Ritnefnd skipuð
Félagið hefur skipað ritnefnd verksins. Í henni sitja Bragi V. Bergmann, almannatengill og ráðgjafi og er hann formaður nefndarinnar, Þorsteinn E. Arnórsson og Sigrún Lárusdóttir, starfsmenn Einingar-Iðju. Nefndin skal koma saman eigi sjaldnar en þrisvar sinnum á ári til. Á þeim fundum mun Jón leggja fram skýrslu um framvindu verksins og gera grein fyrir áætlunum næstu mánaða.