Jólalegur ofnréttur og ávaxtakaka frá Silvu

Í jólablaði félagsins sem kom nýlega út má m.a. finna eftirfarandi uppskriftir, en í ár sá Kristín Kolbeinsdóttir, eigandi veitingastaðarins Silvu í Eyjafjarðarsveit sem sérhæfir sig í matargerð þar sem áherslan er á hráfæði, lifandi fæði og grænmetisrétti, um að gefa lesendum blaðsins hátíðaruppskriftir. Kristín náði tökum á eigin heilsu með bættum lífsstíl og þá fyrst og fremst í gegnum mataræði og náttúrulegar meðferðir. Í dag rekur hún Silvu, en er einnig með gistiaðstöðu ásamt manni sínum Gretti Hjörleifssyni að Syðra-Laugalandi þar sem þau eru með tvö sumarhús ásamt íbúðarhúsi með sex herbergjum.

Kristín segir að á hennar heimili sé lögð mikil áhersla á holla matargerð og á jólum er alltaf boðið upp á grænmetisrétti í bland við hefðbundnari rétti. Hún gefur hér uppskriftir að jólalegum ofnrétti sem borinn er fram með nýstárlegum svepparétti og brúnuðum kartöflum og svo ávaxtaköku í eftirrétt.

Heitur ofnréttur með sætum kartöflum

Fyrir 6-8

Tvær stórar sætar kartöflur eða þrjár litlar

Bakaðar í ofni við 200°C í 1 klst., hýðið tekið utan af og þær stappaðar gróft. Settar til hliðar fram að samsetningu

Grænmetisfylling:

1 rauðlaukur, smátt saxaður

½ blaðlaukur, smátt saxaður

1 grænn chilipipar, fínt saxaður

4 hvítlauksgeirar, pressaðir

1 msk cuminduft

1 msk ítalskt hvítlaukskrydd frá Pottagöldrum

1 msk paprikuduft

Salt og pipar eftir smekk (ég nota ca. 1 tsk af hvoru en ég vil ekki mikið salt)

1 kúrbítur, skorinn í munnbita

6 gulrætur, sneiddar

3 sellerýstilkar, sneiddir

3 paprikur – gaman að hafa sitt hvorn litinn, skornar í bita

1 flaska hreint tómatmauk, ca. 400 ml

Aðferð:

Hitið pönnu með olíu sem nær yfir allan flötinn. Setjið lauk og chili út í og svissið þar til laukurinn fer að taka lit. Bætið hvítlauknum út í ásamt kryddunum. Setjið síðan restina af skorna grænmetinu út á ásamt tómatsósunni og látið malla í 5 til 10 mínútur.

Kókossósa:

1 dós kókosmjólk

4 hvítlauksgeirar

1 tsk múskat

1 tsk salt

1 tsk pipar

Aðferð:

Allt sett í blandara og maukað vel saman.

Samsetning:

Smyrjið stórt eldfast mót. Setjið helminginn af sætkartöflumaukinu í botninn og hellið helmingnum af kókossósunni yfir. Setjið grænmetisfyllinguna ofan á, svo restina af sætkartöflumaukinu þar yfir og síðast restina af sósunni. Gott er að setja rifinn mexíkóost yfir allt í lokin eða annan uppáhaldsost.

Bakað í ofni við 180 °C í 30 mínútur

Fyrir þá sem vilja sterkari útgáfu er gott að bæta við 1 chilipipar.

Fyrir þá sem vilja ekki lauk – þá er honum einfaldlega sleppt og hvítlaukskryddinu skipt út fyrir t.d. sítrónupipar.


Marineraðir og bakaðir sveppir

3 box Flúðasveppir, skornir í ferninga

Marinering:

1 skallot laukur, smátt saxaður

2 hvítlauksrif, pressuð

2/3 bolli rauðvín

¼ bolli Bragg Liquid Amino (fæst t.d. í Hagkaup)

¼ bolli Dijon sinnep

1/3 bolli íslensk repjuolía eða önnur hrein olía

1½ tsk þurrkað tarragon/estragon (fáfnisgras)

Aðferð:

Setjið allt hráefnið í skál og pískið vel saman. Bætið sveppunum út í. Látið marinerast í a.m.k. 20 mínútur, því lengur því betra. Veiðið sveppina úr marineringunni með gataspaða og raðið þeim á bökunarplötu með bökunarpappír undir. Bakið við 180°C í 20 mínútur.

Kartöflur í hlynsírópi

1 kg soðnar kartöflur

50 gr smjör

1 dl hlynsíróp

Aðferð:

Skerið kartöflurnar í báta. Hitið smjörið og hlynsírópið við meðalhita á pönnu og bætið kartöflunum út í þegar blandan er að byrja að gyllast. Látið malla á lágum hita þar til blandan er farin að loða við kartöflurnar.

Guðdómleg ávaxtakaka

Kökubotninn

1 bolli döðlur, saxaðar

1 bolli gráfíkjur, saxaðar

½ bolli rúsínur

½ bolli trönuber

Aðferð:

Ef þið eigið sterka matvinnsluvél þarf ekki að saxa ávextina áður en þeir eru settir í hana. Allt hráefnið er sett í matvinnsluvél og látið blandast þannig að deigið tolli vel saman.( Má líka nota hrærivél). Stráið kókosmjöli eða fín söxuðum möndlum/hnetum yfir kökudisk, þetta er til að kakan klessist ekki eins mikið við fatið og það sé auðveldara að ná sneiðunum af. Mótið kökubotn úr deiginu beint á diskinn. Setjið í frysti eða kæli á meðan þið búið til súkkulaðið.

Súkkulaðið:

½ dl kakó

½ dl kókosolía, bráðin

¼ dl agave síróp

Aðferð:

Blandið kakóinu og kókosolíunni vel saman með písk. Bætið agave sírópinu út í og hrærið áfram. Hellið yfir kökubotninn. Gott að bragðbæta með t.d. piparmintuolíu eða appelsínuolíu. Skreytið með fallegum berjum eða niðurskornum ávöxtum, kókosflögum, möndlum, hnetum, kakónibbum eða því sem hugurinn girnist hverju sinni.