Í síðasta jólablaði félagsins má m.a. finna eftirfarandi uppskriftir, en í ár fengum við Múlaberg til að deila með okkur uppskriftum sem lesendur geta nýtt sér fyrir jólin. Rætt var við eigendur Múlabergs, þau Snæbjörn Bergmann, Ingibjörgu Bergmann og Hlyn Halldórsson. Ingibjörg og Snæbjörn sjá um veitingastjórnun staðarins og Hlynur Halldórsson er yfirmatreiðslumaður.
Múlaberg er veitingastaður og kokteilabar staðsettur inni á Hótel KEA í hjarta Akureyrar. Múlaberg er með gríðarlega fjölbreytta starfsemi daglega og þeir sem að staðnum standa brenna fyrir því að veita faglega og góða þjónustu – en eigendur staðarins eru allir fagmenntaðir matreiðslu- og framreiðslumenn.
Staðurinn er opinn frá morgni til kvölds, frá morgunverði kl. 7:00 á morgnanna til kokteila fram á nótt eða til kl. 1:00. Veislusalir Múlabergs eru einnig vel sóttir fyrir allskonar tilefni, allt frá fundum og ráðstefnum að hátíðarkvöldverðum og brúðkaupum.
Ingibjörg Bergmann, einn eigenda Múlabergs segir að jólin séu ævinlega haldin mjög hátíðleg á Múlabergi og úr mörgu að velja fyrir gesti þegar líða fer að jólum. „Já, við höldum jólin hátíðlega ár hvert, vel og lengi. Kannski full hátíðlega þar sem við byrjum að bóka í jólahlaðborðin okkar um mitt sumar og höldum fyrsta jólahlaðborðið í byrjun nóvember,“ segir Ingibjörg.
Gríðarlegur fjöldi fólks kemur í jólahlaðborðin árlega og t.a.m. var tekið á móti rétt tæplega 2.800 gestum á níu kvöldum í fyrra. Í ár stefnir í svipaðan fjölda og er engu til sparað á hlaðborðin, þar sem boðið er upp á yfir 30 mismunandi heimagerða jólarétti. „Jólin eiginlega heltaka staðinn svona yfir þetta tímabil og við bjóðum upp á allskonar jólamatseðla, jólasmárétti, jólakokteila og drykki og svo lengi mætti telja. Svo verður Þorláksmessuskatan auðvitað á sínum stað í hádeginu 23.desember. Það þýðir ekkert hálfkák þegar kemur að jólunum, við förum alla leið með þetta og pössum að allir séu í stressi að elda jólamatinn. Á það ekki örugglega að vera svoleiðis?“ segir Ingibjörg létt í bragði.
Hægt er að sjá allt jólaúrvalið á heimasíðu Múlabergs www.mulaberg.is eða fylgja þeim á facebook og instagram @mulabergbistrobar
Rauðkál Múlabergs
Rauðkálið er svo sannarlega ómissandi með jólamatnum og við á Múlabergi finnum svo sannarlega fyrir því á jólahlaðborðum okkar. Hér er okkar útgáfa af heimagerðu rauðkáli.
1 kg – Rauðkál
200 gr – Púðursykur
50 gr – Smjör
100 gr – Rifsberjahlaup
100 gr – Rauðvínsedik
125 gr – Vatn
125 gr – Portvín
145 gr – Appelsínusafi
½ stk. – Epli (smátt saxað)
1 stk. – Stjörnuanís
1 stk. – Kanilstöng
5 stk. – Einiber
7-10 gr – Salt
Aðferð
Byrjað er að skera rauðkálið í nokkuð þunnar ræmur og skola það. Síðan er sykur brúnaður í potti við vægan hita ásamt smjörinu. Þegar sykur byrjar að brúnast er rauðkálinu hellt útí og leyft að malla í 10-20 mínútur. Muna að hræra reglulega svo ekki brenni í botni. Þegar rauðkálið er byrjað að mýkjast vel má þá bæta við öllum hinum hráefnunum og soðið á lágum hita í 1-2 klst. Þegar rauðkálið er orðið klárt má bragðbæta það með salti, sykri eða ediki eftir smekk.
Beikonsulta Múlabergs
Beikonsultan er eitt best geymda leyndarmál Múlabergs og er ótrúleg með flestum mat – hvort sem það er með jólasteikinni, kalkúni, bökuðum osti, hamborgara eða hamborgarhrygg!
900 gr – Beikon (smátt skorið)
400 gr – Rauðlaukur (smátt skorinn)
50 gr – Repjuolía
100 gr – Sykur
30 gr – Sterk sósa t.d. hot sauce eða sriracha sósa
250 gr – Kaffi
125 gr – Eplaedik
125 gr – Hlynsýróp
Aðferð
Beikon og laukur eru steikt saman í potti ásamt olíunni við vægan hita. Þegar innihald pottsins er orðið fallega brúnað, eftir um 15-20 múnútur skal öðrum hráefnum blandað saman við og blandan skal soðin í potti við vægan hita í 1-2 klst eða þar til vel hefur gufað upp af vökvanum. Mikilvægt er að hræra reglulega í pottinum svo ekki brenni við. Þegar réttri áferð hefur verið náð, þ.e. gullinbrúnt beikon og temmilega mikið magn af vökva má nota töfrasprota til að hakka sultuna aðeins meira niður.
Hreindýrahakkbollur
Þessa fínu uppskrift má nota bæði sem hreindýrabollur með ýmsum sósum eða jafnvel sem glæsilega hreindýrahamborgara!
2 kg – Hreindýrahakk
600 gr – Svínaspekk/fita eða feitt svínakjöt
300 gr – Beikon
500 gr – Laukur
300 gr – Sveppir
5 stk. – Egg
200 gr – Brauðraspur
30 gr – Salt
10 gr – Hvítur Pipar
10 gr – Blóðberg
Aðferð
Einföld en svakalega góð uppskrift. Beikon, laukur og sveppir er smátt skorið og steikt saman upp úr litlu magni af smjöri eða olíu. Síðan er einfaldlega því ásamt hinum hráefnunum blandað saman í hrærivélaskál og hrært saman. Gott er að setja minni parta í einu saman og einnig hægt að handhnoða. Ef elda á hreindýrabollur er best að hnoða saman bollur á stærð við golfkúlu og ofnbaka á 220°c í 10 mínútur og klára svo að elda þær ofan í sósunni sem gerð er með. Við á Múlabergi mælum alltaf með sætri gráðaostasósu með fullt af lauk!