Sameiginleg yfirlýsing forseta ASÍ og framkvæmdastjóra SA um lífeyrismál.
Lífeyrisréttindi starfsmanna á almennum vinnumarkaði eru reist á kjarasamningi milli ASÍ og SA, sem fyrst var gerður árið 1969 og endurskoðaður árið 1995. Um áratuga skeið hafa kjarasamningar SA og aðildarfélaga ASÍ markast af því að réttindi opinberra starfsmanna í lífeyrissjóðum hafa verið mun betri en á almenna vinnumarkaðnum. Stór skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli þessara tveggja markaða voru tekin á árunum 1986-1989 og 2005-2007 og fullum jöfnuði var náð hvað iðgjöld varðar við endurskoðun kjarasamninga í janúar 2016.
Samhliða jöfnun réttinda hefur aukin áhersla verið lögð á sveigjanlega lífeyristöku. Það var t.d. meginmarkmiðið þegar samið var um 2% mótframlag fyrirtækja gegn séreignarsparnaði launamanna á samningstímabilinu 2000-2003. Samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA felst núverandi sveigjanleiki í því að unnt er að flýta eða seinka töku lífeyris gegn lækkun eða hækkun réttinda.
Samningur ASÍ og SA í janúar 2016 einkennist af áherslu á aukinn sveigjanleika við lífeyristöku. Samið var um að sjóðfélagar hefðu val um að ráðstafa 3,5% hækkun framlags launagreiðenda í lífeyrissjóðina á árunum 2016-2018 að hluta eða öllu leyti í nýtt séreignarfyrirkomulag, svonefnda tilgreinda séreign. Af hálfu samningsaðila voru nauðsynlegar breytingar á lífeyrissjóðalögunum gerðar að forsendu þess að þessi nýju réttindi sjóðfélaga yrðu virk.
Í júní 2017 var samþykktum lífeyrissjóðanna sjö, sem starfa á grundvelli kjarasamnings ASÍ og SA, breytt þannig að sjóðfélagar gætu varið hluta skyldutryggingariðgjalds til tilgreinds séreignarsparnaðar. Þetta var gert í trausti þess að þá hafði samkomulag náðst við þáverandi ríkisstjórn um nauðsynlegar lagabreytingar sem gerðu þetta mögulegt. Til stóð að lagafrumvarp, sem samkomulag hafði náðst um, yrði lagt fram í upphafi haustþings. Nú er komin ný ríkisstjórn og hafa ASÍ og SA átt viðræður við fjármálaráðherra um lyktir þessa máls.
Aðilar hafa á ný lagt fram tillögu um nauðsynlegar breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem nú er til skoðunar í fjármálaráðuneytinu. Meginefni breytinga er að lágmarksiðgjald verði hækkað úr 12% í 15,5% og lágmark réttindaöflunar til mánaðarlegs ævilangs ellilífeyris hækki úr 1,4% í 1,8% á ári af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af. Þá verði heimilt að ráðstafa allt að 3,5% af lágmarksiðgjaldinu í tilgreinda séreign og lækka þá réttindi í hlutfalli við það. Gert er ráð fyrir að heimildin verði háð skriflegu, upplýstu vali sjóðfélaga og að honum verði heimilt að flytja tilgreindan séreignarsparnað frá skyldutryggingarsjóði til annars vörsluaðila sem býður upp á slíka sparnaðarleið og öfugt.
Síðasta atriðið, um heimild sjóðfélaga til flutnings tilgreindrar séreignar frá skyldutryggingarsjóði til annars vörsluaðila, er frávik frá kjarasamningi aðila sem gerði ráð fyrir að skyldutryggingarsjóðurinn sæi alfarið um vörslu og ávöxtun tilgreindrar séreignar. Tillaga samningsaðila er því málamiðlun sem stuðlar að aukinni samkeppni um lífeyrissparnaðinn, sem ætti að koma öllum til góða, en raskar ekki innheimtukerfi lífeyrissjóðanna því áfram verður launagreiðanda skylt að skila öllu iðgjaldinu til viðkomandi skyldutryggingarsjóðs.
Samningsaðilar trúa því að innleiðing nýmælisins um tilgreinda séreign, sem hluta samningsbundinnar skyldutryggingar til lífeyris, sé mikið framfaraskref í lífeyrismálum landsmanna. Þar fara saman markmið um að sjóðfélagar eigi þess raunhæfan kost að velja sér hvenær þeir hefja lífeyristöku, óháð því hver lífeyrisaldur er á hverjum tíma, og möguleika á hærri lífeyrisgreiðslum á fyrri hluta lífeyrisskeiðsins. Farsæl útfærsla á hinum nýja valkosti, tilgreindri séreign, er hins vegar áfram háð því að Alþingi lögfesti sem fyrst nauðsynlegar breytingar á lífeyrissjóðalögunum og tryggi þar með sjóðfélögum lífeyrissjóðanna aukið valfrelsi um fyrirkomulag lífeyrisréttinda sinna.
Gylfi Arnbjörnsson Halldór Benjamín Þorbergsson
forseti ASÍ framkvæmdastjóri SA