Íslenski jafnlaunastaðallinn gæti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd

Á vef ASÍ kemur fram að yfirmaður jafnréttismála hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) segir íslenska jafnlaunastaðalinn áhugaverða nýjung sem geti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd en ASÍ hefur unnið að gerð og innleiðingu Jafnlaunastaðalsins í þríhliða samstarfi launafólks, atvinnurekenda og ríkisins. Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Arbetsliv i Norden.

Markmið jafnlaunastaðalsins er að tryggja að konum og körlum, starfandi hjá sama atvinnurekanda, væru greidd jöfn laun og nytu sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. 

Shauna Olney fer með yfirstjórn jafnréttismála hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni og fer fyrir umræðu um konur á vinnumarkaði sem stofnunin stendur fyrir í tengslum við aldarafmæli sitt árið 2019.

Samkvæmt umfjöllun Arbetsliv i Norden hefur kynjamunur á vinnumarkaði haldist að mestu óbreyttur frá því á áttunda áratugnum. Þá sé sláandi hvað þróunin á þessu málefnasviði hefur verið hægfara þegar rýnt er í alþjóðleg gögn sem ILO hefur aflað.

Í umfjölluninni er rætt við sérfræðinga um ýmsar hliðar kynjamisréttis á vinnumarkaði, ástæður, afleiðingar og leiðir til úrbóta. Meðal annars er þeirri spurningu varpað fram hvort Íslendingar hafi fundið svarið með þróun jafnlaunastaðalsins sem er hinn fyrsti sinnar tegundar í heiminum.

Shauna Olney segir áhugavert að fylgjast með innleiðingu staðalsins á Íslandi, ekki síst fyrir það hvernig byggt er á þríhliða samstarfi ríkisins, atvinnurekenda og launafólks. Þessi sameiginlega nálgun sé mikilvæg til að vinna breytingum framgang.