Þar kemur til dæmis fram að konur í Svíþjóð og Danmörku eiga fæst sæti í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni, að íslenskir karlar eru líklegastir til að taka feðraorlof, að finnsk börn fara síst í leikskóla og að sænskir karlar verja fleiri mínútum í ólaunuð heimilisstörf en kynbræður þeirra annars staðar á Norðurlöndum.
Launamundur kynjanna mestur á Íslandi
Framfarir hafa orðið á Íslandi á undanförnum tíu árum en launamunur kynjanna er þó sá mesti á Norðurlöndum.
Hagstofur landanna hafa unnið saman í rúmt ár að því að safna samanburðartölum að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið er að veita stjórnmálafólki í löndunum bestu fáanlegu upplýsingar þegar mótuð er stefna í jafnréttismálum en einnig að miðla þekkingu um norrænt jafnrétti til annarra landa.
„Norðurlöndin standa framarlega í jafnréttismálum. Enn eru þó mörg verk óunnin. Ástandið er mismunandi eftir löndum en við getum öll gert betur á þeim sviðum sem tölfræðin lýsir. Því er mikilvægt að upplýsingarnar séu aðgengilegar. Við þurfum að bera okkur saman innbyrðis á Norðurlöndum til þess að átta okkur á því hvernig við getum tekið frekari framförum á þessu sviði,“ mælir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Á vordögum gaf Norræna ráðherranefndin út fyrstu tölfræðihandbókina í vasabroti um norrænt jafnrétti, „Nordic Gender Equality in Figures“. Nú eru tölurnar komnar út í stafrænu formi og eru því enn aðgengilegri en áður.
Meðal kaflaheita eru lýðfræði, heilbrigði, menntun, tekjur og völd.
Gott tækifæri til þess að öðlast sýn af jafnrétti á Norðurlöndum
Norrænu tölurnar eru nýrri en hjá öðrum alþjóðlegum gagnagrunnum með jafnréttistölum og innihalda auk þess fleiri sambærilega vísbenda.
„Hér gefst einstakt tækifæri til þess að öðlast almenna heildarsýn og nákvæma mynd af jafnrétti á Norðurlöndum,“ segir Klaus Munch Haagensen, hjá Danmarks Statistik, en hann sá um að safna tölum landanna saman.
Upplýsingunum er raðað í efnisflokka með línuritum og útskýringum. Eins er hægt að fylgja þróuninni um ákveðinn tíma og sjá hvað er líkt og ólíkt með löndunum.
Sumar tölur sýna Norðurlöndin í samanburði við meðallag innan Evrópusambandsins. Þær sýna að munur á ellilífeyrisgreiðslum karla og kvenna er meiri á Norðurlöndum en innan ESB og mun skýringin vera sú að algengara er að konur búi einar á Norðurlöndum.