Miðstjórn ASÍ harmar þá vegferð sem Icelandair er á og krefst þess að stjórnendur félagsins afturkalli nú þegar uppsagnirnar.
Með ákvörðun Icelandair að segja upp á annað hundrað flugfreyjum og flugþjónum eru þeim settir afarkostir, annaðhvort taki þau fullt starf eða missi vinnuna. Þessi ákvörðun félagsins er í andstöðu við sátt og sameiginlegan skilning stéttarfélags flugfreyja og flugþjóna sem staðfestur er með sérstakri bókun með kjarasamningi aðila um þetta efni. Það er krafa verkalýðshreyfingarinnar að fyrirtækið virði réttindi flugfreyja og flugþjóna, þ.m.t. kjarasamninga sem gerðir hafa verið og bókanir með þeim.
Til að bíta höfuðið af skömminni hefur Icelandair sagt upp á þriðja tug starfsmana hér á landi og ákveðið að útvista verkefnum til Eystrasaltsríkja þar sem laun og önnur starfskjör eru allt önnur og verri en hér gilda. Minna þær aðfarir óþægilega á það viðskiptahætti sem Primera Air ástundaði í fullkominni óþökk norrænnar verkalýðshreyfingar. Enda reyndist það feigðarflan.
Icelandair er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins og hefur notið ákveðinnar virðingar vegna starfsmannastefnu sinnar. Sá harkalegi stjórnunarstíl sem fyrirtækið sýnir nú á ekkert skylt við hana.
Miðstjórn ASÍ harmar þá vegferð sem Icelandair er á og krefst þess að stjórnendur félagsins afturkalli nú þegar uppsagnirnar. Allt annað er óásættanlegt.