Iceland með hæsta verðið en Bónus það lægsta

Iceland er dýrasta matvöruverslunin samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var 10. október sl. en í 60% tilfella eða 53 af 89 var Iceland með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 54 tilfellum af 89 eða 61% tilfella.

Lélegar verðmerkingar var víða að finna í verslun Nettó í könnuninni eða í 18% tilvika en slíkt kemur í veg fyrir að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun við innkaup.

Í þriðjungi tilfella var munurinn á hæsta og lægsta verði í könnuninni yfir 60%, í 16% tilfella yfir 90% verðmunur en í 53% tilfella var verðmunurinn yfir 40%. Mestur verðmunur var á hreinlætisvörum, grænmeti og ávöxtum og ýmis konar þurrvörum.

Iceland með hæsta verðið en Bónus það lægsta
Mikill verðmunur var á flestum þeim vörum sem kannaðar voru. Í 8 tilfellum af 89 var yfir 120% verðmunur og í 7 tilfellum yfir 90% verðmunur. Iceland er sem fyrr sú verslun sem oftast er með hæsta verðið eða í 60% tilfella en þar á eftir kemur Hagkaup með hæsta verðið í 21 tilfelli af 89 eða í 23% tilfella. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 53 af 89 tilfellum eða í 61% tilfella en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 13 tilfellum.

Lélegar verðmerkingar grafa undan samkeppni
Athygli vekur hversu oft vantaði verðmerkingar í Nettó en samkvæmt lögum ber fyrirtækjum að verðmerkja allar vörur, annaðhvort á vörunni sjálfri eða með hillumerkingu eða skilti við vöruna. Verðmerkingar eru afar mikilvægar til að stuðla að heilbrigðum markaði en nauðsynlegt er að verðmerkja vörur svo að neytandi átti sig á samhenginu milli vöru og verðs. Lélegar verðmerkingar gera neytendum erfitt fyrir að taka upplýsta ákvörðun og grafa þannig undan samkeppni.

Mestur verðmunur á hreinlætisvörum og þurrvörum 
Mesti verðmunurinn er á hreinlætisvörum en sem dæmi má nefna að 175% verðmunur var á dömubindum en lægst var stykkjaverðið á þeim í Costco á 12 kr. en hæst í Iceland á 34 kr stk. Þá var 118% verðmunur á hæsta og lægsta verði á 50 rykklútum frá Takk, dýrastir voru þeir í Kjörbúðinni Garði á 649 kr. en ódýrastir í Bónus á 298 kr. 
235% verðmunur var á kílóverðinu á Neutral Storvask þvottaefni en hæst var það í Hagkaup, 1332 kr. en lægst í Bónus Árbæ, 398 kr. Mikill verðmunur var einnig á ýmsum þurrvörum en þar má nefna að 90% verðmun á kílóverði á Cheerios, lægst var það í Bónus, 864 kr. en hæst í Iceland, 1643 kr.

Verðkönnunin í heild sinni

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 89 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Árbæ, Nettó Búðakór, Krónan Lindum, Hagkaup Kringlunni, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaup, Costco og Kjörbúðin Garði. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.