Hvað kosta sumarnámskeið fyrir börn og unglinga 2017?

Yfir sumartímann senda margir foreldrar börn sín á hin ýmsu námskeið þar sem skólar eru lokaðir og foreldrar eiga sjaldnast jafn marga frídaga og börnin. Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman dæmi um sumarnámskeið sem í boði eru fyrir börn og unglinga. Námskeiðin eru af ýmsum toga og á allskyns verði sem liggur á bilinu 4.450 til 84.000 kr. Mörg námskeiðin eru á sama verði og í fyrra. Þó má greina hækkanir á námskeiðum, algeng hækkun er 5-20% en mesta hækkun í könnuninni reyndist 67%.

Verð á sumarnámskeiðum
Það er umtalsverður kostnaður að senda börn og unglinga á námskeið á sumrin, þrátt fyrir að ódýrasti kosturinn sé valinn. Þessi kostnaður getur svo margfaldast ef mörg börn eru í fjölskyldunni og ef börnin/barnið er í lengri tíma yfir sumarið í skipulagðri dagskrá. Hér getur því verið um talsverðar upphæðir að ræða sem reynst geta mörgum fjölskyldum þungar í skauti. 

Boðið er uppá sumarnámskeið á mjög mismunandi verði, ódýrasta námskeiðið er 4.450 kr. á íþrótta- og leikjanámskeið hjá Íþrótta-og tómstundaráði Hafnarfjarðar. Dýrasta námskeiðið, af þeim sem skoðuð voru, er hjá Dale Carnegie á 84.000 kr. Verð á þeim sumarnámskeiðum, sem boðið var uppá 2016 og aftur nú, hefur að mestu staðið í stað milli ára. Mest hækkaði verðið á Sumarnámskeiði í náttúrufræðum hjá Náttúrufræðistofu en það kostaði 6.000 kr. í fyrra en hækkaði í 10.000 kr. núna eða um 67%. Eitt námskeið lækkaði í verði sökum þess að ekki verður boðið uppá hádegismat líkt og fyrri ár annars var ekki um lækkanir að ræða.

Sumarnámskeið í mánuð fyrir 10 ára
Sem dæmi þarf fjölskylda á höfuðborgarsvæðinu með 10 ára gamalt barn sem fer í tvær vikur á námskeið allan daginn og í tvær vikur hálfan daginn að greiða 58.000 kr. miðað við valið hér að neðan og er það fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat, en hádegismatur er einungis innifalinn í námskeiði fyrstu vikunnar.

Sumarnámskeið í mánuð fyrir 8 ára
Fjölskylda á höfuðborgarsvæðinu með 8 ára gamalt barn sem fer á eitt 5 daga námskeið allan daginn, annað heilsdagsnámskeið sem endar með útilegu og í tvær vikur hálfan daginn þarf að greiða 66.570 kr. miðað við valið hér að neðan, en það er fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat.

Tafla með verðsamanburði á sumarnámskeiðum 2017

Skoðuð voru verð á námskeiðum íþróttafélaga, á vegum íþrótta- og tómstundarráða, sveitarfélaga, skátafélaga og frjálsra félagasamtaka. Námskeiðunum í könnuninni er skipt eftir fjölda námskeiðsdaga og klukkustunda á dag. Víða er boðin gæsla á morgnana áður en námskeiðin hefjast, í hádeginu og eftir að dagskrá námskeiðanna lýkur á daginn. Misjafnt er hvort greiða þurfi aukalega fyrir þessa gæslu eða hvort hún er innifalin í námskeiðsgjaldinu. Sama er að segja um hádegisverð og hressingu, matur er sjaldnast innifalinn í námskeiðsgjaldinu, en oft er hægt að kaupa heitan mat gegn vægu gjaldi.

Það gjald sem gefið er upp í könnuninni er ávallt miðað við eitt stakt námskeið þannig að ekki er tekið tillit til afsláttarverðs t.d. iðkendaafsláttar eða systkinaafsláttar. Við samanburð á verði námskeiða er því nauðsynlegt að hafa þetta í huga. Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðunum er ekki metin. Úrvalið af sumarnámskeiðum fyrir börn og unglinga er mjög mikið og þessi könnun nær aðeins yfir hluta þeirra.